Hoppa yfir valmynd
11. september 2003 Innviðaráðuneytið

Ferðaþjónustuaðilar á Akureyri og Húsavík heimsóttir

Nýlega fundaði ráðherra með ferðaþjónustuaðilum á Akureyri og á Húsavík þar sem ýmis mál voru rædd. Á Akureyri var m.a. rætt um nýja Markaðsskrifstofu Norðurlands, flug Air Greenland á milli Akureyrar og Kaupmannahafnar og málefni gististaða í bænum.

Á Húsavík heimsótti ráðherra Hvalamiðstöðina og fundaði síðan með forsvarsmönnum safnsins og hvalaskoðunarferða á Húsavík. Lýstu þeir yfir áhyggjum sínum af yfirstandandi hrefnuveiðum og fyrirhuguðum veiðum á næstu árum. Farið var vandlega yfir stöðuna og umfjöllun innlendra og erlendra fjölmiðla um málið.

Á fundi með bæjarráðsmönnum á Húsavík komu einnig fram áhyggjur af hrefnuveiðum enda telja bæjaryfirvöld að hvalaskoðun sé einn af hornsteinum ferðaþjónustunnar á svæðinu. Á þeim fundi voru einnig ræddar hafnar- og vegaframkvæmdir auk málefna Húsavíkurflugvallar, en eins og kunnugt er hefur áætlunarflug um völlinn legið niðri um nokkurt skeið.

Í fylgd með ráðherra voru formaður SAF, ferðamálastjóri, aðstoðarmaður ráðherra og sérfræðingur samgönguráðuneytisins í ferðamálum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum