Hoppa yfir valmynd
16. september 2003 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Norræna skólahlaupið 2003 (16.09.2003)


Til skólastjóra grunn- og framhaldsskóla

"Norræna skólahlaupið" mun fara fram á öllum Norðurlöndunum á tímabilinu 15. september til 1. desember n.k. Verður þetta í 19. skiptið sem við tökum þátt í þessu samnorræna hlaupi og höfum við staðið okkur mjög vel í samanburði við frændþjóðir okkar, þar sem allt að því helmingur nemenda í grunnskólum landsins hafa hverju sinni tekið þátt í hlaupinu.

Þó að þess hafi sérstaklega verið getið hér að grunnskólar hafi staðið sig vel í hlaupinu til þessa, þá er þess vænst að framhalds- og sérskólar verði nú með af krafti og áhuga, en nokkuð hefur á það skort í fyrri hlaupum.

Með Norræna skólahlaupinu er leitast við að hvetja nemendur skólanna til þess að æfa hlaup og aðrar íþróttir reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan.

Er því hér hvatt til þess að allir skólar verði með í Norræna skólahlaupinu 2003 en þátttakendur geta valið hve langt þeir hlaupa þ.e. 2.5 km, 5 km eða 10 km .

Að hlaupinu loknu fær hver þátttakandi og einnig hver skóli viðurkenningarskjal þar sem greint er frá árangri, og heildarúrslit verða birt í fjölmiðlum og send skólum landsins. Það skal undirstrikað að hér er fyrst og fremst stofnað til hollrar hreyfingar en ekki keppni, og áhersla á það lögð að allir verði með.
Markaðsnefnd mjólkuriðnaðarins hefur styrkt útgáfu viðurkenningarskjala á myndarlegan hátt og samstarfsaðili að þessu verkefni er einnig Íþróttakennarafélag Íslands.

Þess er vænst að þú leggir okkur lið með skipulagningu og jákvæðri kynningu á hlaupinu í skólanum og í samráði við kennara og annað starfsfólk skólans hvetjir nemendur til þátttöku í hlaupinu, þegar það fer fram.

Allar frekari upplýsingar um Norræna skólahlaupið 2003 er að fá hjá íþrótta- og æskulýðsdeild í menntamálaráðuneytinu og stjórn Íþróttakennarafélags Íslands.


(September 2003)




Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum