Hoppa yfir valmynd
17. september 2003 Matvælaráðuneytið

Stofnun íslensks-kanadísks verslunarráðs

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 13/2003






Íslenskt-kanadískt verslunarráð var stofnað í Toronto föstudaginn 12. september. Að stofnun þess hefur verið unnið um nokkurt skeið og hefur sendiherra Íslands í Ottawa, Hjálmar W. Hannesson, haft frumkvæði að þeirri vinnu. Á stofnfundinum var kosin stjórn. Gordon Reykdal, forstjóri og aðalræðismaður Íslands í Edmonton, var kjörinn fyrsti formaður verslunarráðsins og Jóhann Valberg Ólafsson, svæðisstjóri Eimskipa í Kanada, varaformaður.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra ávarpaði stofnfundinn. Fór hún í máli sínu yfir aðstæður til viðskipta á Íslandi. Þá hélt meðal annarra Hugh Porteous yfirmaður rannsókna og fyrirtækjasamskipta hjá Alcan erindi og lofaði hann mjög íslenskt viðskiptaumhverfi og samskipti Alcan við íslensk fyrirtæki og stjórnvöld. Rúmlega 60 fulltrúar úr íslensku og kanadísku atvinnulífi mættu til stofnfundarins.

Fundurinn fór fram á stærsta hóteli í Kanada, Delta-Chelsea hótelinu í Toronto. Þar hefur frá 3. september átt sér stað kynning á Íslandi, m.a. hafa veitingastaðir á hótelinu haft íslenskan mat á boðstólum. Þessi kynning er hluti af markaðsstarfi "Iceland Naturally" verkefnisins, sem er samstarfsverkefni íslenskra stjórnvalda og fyrirtækja í Norður Ameríku.

Toronto, 12. september 2003
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum