Hoppa yfir valmynd
22. september 2003 Matvælaráðuneytið

Manítóba og Ísland undirrita viljayfirlýsingu um stuðning við vetnisvæðingu.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti ------------------------------------------------------------------ Fylkisstjórn Manítóba
Nr. 14/2003




MANÍTÓBA OG ÍSLAND
UNDIRRITA VILJAYFIRLÝSINGU UM STUÐNING VIÐ VETNISVÆÐINGU

Nýjum áfanga verður náð í dag af hálfu forystumanna í Manítóbafylki á sviði samgöngumála og vetnisframleiðslu þegar Tim Sale, orku-, vísinda- og tæknimálaráðherra, og Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Íslands, undirrita sameiginlega viljayfirlýsingu um vetnisvæðingu.

"Milli Manítóba og Íslands eru fjölbreytt menningar- og viðskiptatengsl og endurnýjanlegar orkulindir og vetni eru einnig sameiginlegt áhugamál," sagði Tim Sale. "Íslendingar hafa skipað sér í forystusveit og verið áberandi á heimsvísu á sviði vetnisvæðingar. Samkomulagið sem undirritað var í dag stuðlar að aukinni samvinnu á þessu sviði milli Íslands og Manitóba og gerir Manitóba kleift að vinna áfram ýmis verkefni sem nýlega hafa verið kynnt, og má þar nefna nýútkomna bráðabirgðaskýrslu um vetnisvæðingu og kynningu á einstæðum almenningsvagni sem knúinn er með vetnisefnarafala."

Í viljayfirlýsingunni segir að kannaðir verði möguleikar á sameiginlegum verkefnum á sviði vetnisvæðingar. Einnig verða kannaðir hugsanlegir kostir manna- og upplýsingaskipta og sameiginlegra rannsóknar- og þjálfunarverkefna í tengslum við vetnisvæðingarstarfið. Samningurinn gæti myndað grunn að mikilvægum tengslum í báðar áttir milli Norður-Ameríku- og Evrópumarkaðar.

"Manítóba og Ísland eru bundin sterkum menningarböndum sem ná allt aftur til áttunda áratugar nítjándu aldar, og þar eru svipaðar áherslur á mörgum sviðum, svo sem í orkumálum," sagði Valgerður Sverrisdóttir. "Einn liður í stefnu okkar er að leggja hagkvæman grundvöll hér á landi að alþjóðlegum vetnisrannsóknum. Við hér á Íslandi og í Kanada eigum möguleika á því að gera að veruleika áform okkar um vetnisvæðingu með því að virkja framtíðarsýn okkar og nýta tækni okkar og þekkingu, grípa þau tækifæri sem gefast og þar með möguleika á samstarfi. Við eigum langt í land – en í þessum efnum eru draumar til alls fyrstir, og við verðum að eiga okkur draum um betri heim."

Íslensk stjórnvöld hafa kynnt stefnu um að styðja við þróun í átt til sjálfbærs vetnissamfélags, sem m.a. felst í alþjóðlegu samstarfi, hagsstæðum starfsskilyrðum, þróun þekkingar og tækni á sviði vetnisnýtingar, menntun og þjálfun, framleiðslu vetnis og notkun efnarafala í samgöngum. Íslendingar hafa skapað sér viðurkenningu sem forystuþjóð á sviði vetnisvæðingar, m.a. á grunni alþjóðlegs samstarfs á þessu sviði við aðila á borð við Daimler-Chrysler, Shell, Norsk Hydro og Evrópusambandið.

Fylkisstjórnin í Manitóba hefur skuldbundið sig til þess að kanna og nýta tækifæri til vetnisþróunar og skipað í þeim tilgangi framkvæmdanefnd um vetnismál í Manitóba. Auk þess að undirrita viljayfirlýsinguna um samstarf við Íslendinga munu forystumenn á þessu sviði í Manitóba halda áfram vinnu að verkefni sem felst í að þróa stætisvagna sem búnir eru vetnisknúnum efnarafala, kanna forsendur fyrir stofnun rannsóknarseturs fyrir framsæknar vetnisrannsóknir, og uppsetningu fyrirhugaðs kynningar-verkefnis með kyrrstæðum efnarafala auk þess að byggja upp og starfrækja rafgreiningarstöð við Hydro Dorsey riðbreytistöðina í Manítóba. Þessi verkefni, auk bráðabirgðaskýrslunnar um tækifæri á sviði vetnismála, verða rædd á fundum sem haldnir verða í tengslum við undirritun viljayfirlýsingarinnar.

Heimsóknin til Íslands er liður í ferðalagi í tengslum við verkefni sem nefnist "Powering the plains", eða "orkuvæðing sléttanna", en að því standa opinber yfirvöld og einkaaðilar í Bandaríkjunum og Kanada og felst það í því að marka stefnu í orku- og landbúnaðarmálum sem miðar að því bæta virðisauka í atvinnulífinu á svæðinu og draga úr hættu á loftslagsbreytingum og öðrum umhverfisvandamálum. Háttsettir embættismenn, stjórnendur á sviði iðnaðar- og landbúnaðarmála og talsmenn endurnýjanlegra orkulinda og sjálfbærs landbúnaðar frá Iowa, Minnesota, Norður- og Suður-Dakota og Manítóba eru nú á ferð um fjögur ríki sem eru leiðandi í orkumálum, þ.e. Holland, Þýskaland, Danmörk og Ísland, þar sem þeir leita lausna í orkumálum sem munu stuðla að velsæld á heimaslóðum þeirra á næstu áratugum og til framtíðar.

Sendinefndin mun beina sjónum að víðtæku sviði málefna, svo sem aðgerðum til að vinna gegn loftlagsbreytingum, virkjun endurýjanlegra orkulinda og undirbúningi að vetnisorkubúskap og mun í því sambandi eiga fundi með forystumönnum á sviði opinberrar stefnumótunar og viðskipta í hverju landi fyrir sig. Að auki vonast sendinefndin til þess að koma á tengslum og leggja grunn að hugsanlegum samstarfsverkefnum milli stjórnvalda og einkafyrirtækja heima fyrir og samsvarandi aðila í öðrum löndum og nýta sér þann lærdóm sem fæst með heimsóknum sendinefndarinnar.

Reykjavík, 22. september 2003.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum