Hoppa yfir valmynd
24. september 2003 Matvælaráðuneytið

Úrslit í samkeppni um rafrænt samfélag.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 17/2003





Samkeppni um rafrænt samfélag er lokið. Tvö verkefni hafa verið valin til þátttöku í þróunarverkefni, sem mun standa í þrjú ár. Að þessum verkefnum standa annars vegar sveitarfélögin Árborg, Hveragerði og Ölfus, undir verkefnaheitinu "Sunnan 3", og hins vegar sveitarfélögin Aðaldælahreppur, Húsavíkurbær og Þingeyjasveit, undir verkefnaheitinu "Virkjum alla."

Framlag ríkisins til þróunarverkefna rafræns samfélags nemur samtals 120 m.kr. sem fara til framkvæmdar þeirra á þriggja ára tímabili. Framlag sveitarfélaganna er nokkuð hærra svo verðmæti þróunarverkefnanna er um 300 m.kr. alls á tímabilinu.

Fyrirmynd þessa þróunarverkefnis er að finna í Nova Scotia í Kanada, en þar var haldin sambærileg samkeppni milli sveitarfélaga um "Smart Communities". Í ljósi þess að kannanir hafa sýnt að notkun upplýsingatækni á landsbyggðinni er talsvert á eftir notkuninni hér á höfuðborgarsvæðinu var lagt til við gerð byggðaáætlunar að ráðast í þetta verkefni.

Með samkeppni er tryggt jafnræði milli þátttakenda og í því fyrirkomulagi felst aukin hvatning. Markmið samkeppninnar er að treysta stöðu upplýsingasamfélagsins á landsbyggðinni - svo íbúar hennar geti á sem bestan og hagkvæmastan hátt nýtt sér þann ávinning sem upplýsinga- og fjarskiptatæknin býður upp á. Þeim þróunarverkefnum sem til verða er ætlað að hafa víðtæk áhrif á þróun viðkomandi byggðarlaga og vera yfirfæranleg svo önnur byggðarlög geti haft af þeim sambærilegan ávinning.

Forval vegna þessarar samkeppni fór fram í byrjun árs. 13 byggðarlög tóku þátt í forvalinu, en um var að ræða einstök sveitarfélög eða nokkur samliggjandi sveitarfélög sem áttu sameiginlega hagsmuni varðandi hagnýtingu upplýsinga- og fjarskiptatækninnar. Fjögur sveitarfélög voru valin til þátttöku í samkeppninni og fékk hvert þeirra 1,6 m.kr. til að fullvinna hugmyndir sínar. Sérstök valnefnd fór yfir verkefnin og valdi þau tvö sem áfram hljóta stuðning.

Um verkefnin
Í umsögn valnefndar kemur m.a. fram að meginstyrkur verkefnisins "Sunnan 3" felist í víðtækum áætlunum um beitingu upplýsinga- og fjarskiptatækni til að ná fram skilvirkari stjórnsýslu og verulegri hagræðingu í rekstri sveitarfélaganna þriggja. Byggt verður upp heildstætt netkerfi fyrir sveitarfélögin sem leitt getur til aukinnar og stöðugri upplýsingamiðlunar og betri og skilvirkari þjónustu. Sveitarfélögin munu m.a. geta notið ávinnings af sameiginlegum rafrænum útboðum og innkaupum, sameinast um margvíslegan rekstur og nýtt sameiginlega véla- og tækjakost með rafrænni skráningu og pöntunum. Verkefnið boðar mjög áhugaverð samfélagsleg nýmæli og er það líklegt til að verða fyrirmynd í þróun upplýsingavæðingar í stjórnsýslu sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að sett verði upp rafrænt þjónustutorg. Það er vel til þess fallið að auka gagnvirkni í samskiptum stjórnvalda og íbúanna. Það mun m.a. bæta aðgengi fatlaðara og sjónskertra að upplýsingum og auka aðkomu íbúanna að lýðræðislegum ákvörðunum.
Með skrifstofuhóteli er ætlun sveitarfélaganna sem standa að "Sunnan 3" að opna aðgang að öflugu fjarskiptasambandi, búnaði og aðstöðu til að stunda vinnu og nám. Gert er ráð fyrir þátttöku og fræðslu ungs fólks í "Sunnan 3" með tvennum hætti; með rafrænni félagsmiðstöð og rafrænu uppeldi, þar sem ungir kenna eldri. Verkefnið er m.a. vel fallið til að auka samkennd meðal barna og ungmenna á svæðinu og styrkja margvíslegt forvarnarstarf með rafrænum hætti.

Í umsögn valnefndar um verkefnið "Virkjum alla" kemur fram að í verkefninu sé megin áhersla lögð á uppbyggingu upplýsingatorga fyrir íbúana og á rafræn viðskipti, auk samhliða uppbyggingar á tæknilegri og samfélagslegri grunngerð.

Torgin verða vettvangur rafrænnar þjónustu. "Skjálfandatorg" verður einskonar rafræn heimahöfn byggðarlagsins og mikilvægast torganna í samfélagslegu tilliti. Það veitir m.a. aðgang að öðrum upplýsingaveitum. "Íbúatorg" er samheiti fyrir stjórnsýsluvefi sveitarfélaganna þar sem íbúarnir sinna erindum sínum við stjórnsýsluna, eiga samskiptavettvang og taka þátt í viðhorfskönnunum. "Fræðslutorg" er metnaðarfullt þróunarverkefni sem verður vettvangur símenntunar svo og dreif- og fjarmenntunar. Það mun nýtast öllum fræðslustofnunum byggðarlagsins fyrir samstarf, nýsköpun, hugmyndavinnu og þróunarstarf á sviði rafrænna tæknilausna fyrir menntakerfið. "Heilsutorg" verður vettvangur fyrir heilsugæslu og forvarnir. "Rafrænt markaðstorg" mun gegna lykilhlutverki í uppbyggingu á rafrænum viðskiptum, með útfærslu á rafrænni miðlun viðskiptaskjala og með innleiðingu á notkun rafrænna skírteina og dreifilykla. "Sparitorg" verður vettvangur fyrir þróun rafrænnar fjármálaþjónustu m.a. með útfærslu á rafrænum skilríkjum. Lokamarkmið við þróun sparitorgsins er að allir íbúar svæðisins verði komnir með rafræn skilríki.

Um starf valnefndar
Störf valnefndarinnar byggjast á verkefnislýsingu frá janúar 2003, samkeppnisgögnum frá apríl 2003 og á valmælikvörðum frá júní 2003.
Valmælikvarðarnir voru sendir til þátttakenda í bréfi frá Ríkiskaupum 18. júní 2003. Þeir skiptast í þrjá meginhluta. Lýsing á þróunarverkefnunum og einstökum áföngum þeirra vegur þyngst eða 60% af heildareinkunn. Þar er m.a. tekið fram að þróunarverkefnin þurfi að fela í sér nýjungar sem hafa umtalsverð áhrif til varanlegrar styrkingar búsetuskilyrða í héraðinu. Yfirfærsla þróunarverkefnanna vegur 20% af heildareinkunn. Lögð er áhersla á að verkefnin verði þannig úr garði gerð að þau geti nýst öðrum byggðarlögum, fyrirtækjum eða einstaklingum og leitt til sambærilegs ávinnings. Þá skyldi valnefndin meta einstaka þættti verkefnanna sem líklegir væru til að hafa áhrif á árangurslíkur þeirra, eins og kostnaðar- og framkvæmdaáætlanir og samfélagslegan bakstuðning. Þessi atriði vega einnig 20% af heildareinkunn.
Reykjavík 24. september 2003.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum