Hoppa yfir valmynd
26. september 2003 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Afhending Evrópumerkisins

Evrópumerkið fyrir árið 2003 var afhent á evrópska tungumáladeginum 26. september og fór afhendingin fram í hátíðarsal Háskóla Íslands en þar fór fram málþing á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.

Evrópumerkið fyrir árið 2003 var afhent á evrópska tungumáladeginum 26. september og fór afhendingin fram í hátíðarsal Háskóla Íslands en þar fór fram málþing á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Vigdís Finnbogadóttir afhenti verðlaunin.

Verkefnið sem hlýtur Evrópumerkið að þessu sinni er Framfaramöppur í tungumálanámi sem unnið er af tungumálakennurum í Laugalækjarskóla undir leiðsögn Brynhildar A. Ragnarsdóttur. Kennararnir sem standa að verkefninu eru: Ágústa Harðardóttir, Nanna Ævarsdóttir, Helga Finnsdóttir, Þórunn Sleight, Helga Hilmisdóttir og Gry Ek Gunnarsson.

Evrópumerkið "European Label" er samstarfsverkefni á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og felst í veitingu viðurkenningar fyrir nýbreytniverkefni á sviði náms og kennslu í erlendum tungumálum. Veiting merkisins er í samræmi við stefnumörkun Hvítbókar Evrópusambandsins um menntamál. Þar er áhersla lögð á mikilvægi tungumálakunnáttu fyrir íbúa í löndum Evrópusambandsins og færni í þremur tungumálum er sett fram sem markmið. Viðurkenningunni er ætlað að beina athygli að frumlegum og árangursríkum verkefnum og hvetja til þess að þeim aðferðum sem þar er beitt nýtist sem flestum. Lögð er áhersla á að verkefnin feli í sér nýbreytni sem aðrir geti lært af og að þau nýtist í símenntun.

Í umsögn dómnefndar um verkefnið Framfaramöppur í tungumálanámi kemur fram að það hófst sem tilraunaverkefni á síðasta ári. Áhersla er lögð á að nemendur geri sér grein fyrir þeim kröfum sem til þeirra eru gerðar, að þeir verði meðvitaðir um námsstöðu sína og námsframvindu og eflist í að taka ábyrgð á eigin námi. Lögð er áhersla á að nemendur geri sér grein fyrir hvaða aðferðir og leiðir henta þeim best og þjálfist í að leggja grundað mat á eigin verk í samvinnu við kennara og foreldra. Um er að ræða einstaklingsbundið nám þar sem gengið er út frá styrk hvers nemanda, þekkingu hans og reynslu. Öllum færniþáttum er sinnt, ekki síst munnlegri færni. Það er mat dómnefndar að hér sé um áhugaverða nýbreytni að ræða og væntir þess að viðurkenningin leiði til þess að haldið verði áfram að leita árangursríkra leiða í tungumálakennslu.

Menntamálaráðuneytið, 26. september 2003


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum