Hoppa yfir valmynd
26. september 2003 Matvælaráðuneytið

Stofnun undirbúningsfélags vegna rafskautaverksmiðju á Katanesi.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 18/2003







Eins og áður hefur komið fram í fjölmiðlum hafa á undanförnum mánuðum staðið yfir viðræður við erlenda aðila um byggingu og rekstur rafskautaverksmiðju á landi Kataness í Hvalfirði. Síðan í maí hafa viðræður Markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar (MIL), fyrir hönd íslenskra stjórnvalda, einkum verið við fulltrúa R&D Carbon Ltd. um samstarf til að undirbúa byggingu verksmiðjunnar. Gert er ráð fyrir að verksmiðjan muni í byrjun framleiða um 340.000 tonn af rafskautum í lokaðri hringrás, veita 140 manns atvinnu og kosta um 17 milljarða króna að reisa. Í ágúst var gengið frá sameiginlegri aðgerðaáætlun (Joint Action Plan) viðræðuaðilanna til framgangs verkefninu.

Í samræmi við aðgerðaáætlunina hefur R&D Carbon Ltd. nú stofnað hlutafélagið Kapla hf., Þróunarfélag rafskautaverksmiðju Katanesi. Í stjórn Kapla hf. sitja Werner Regli, stjórnarformaður, Werner K. Fischer og Eugen Arpagaus, allir búsettir í Sviss. Allir þessir aðilar eru vel þekktir í áliðnaðinum og sem fyrrum starfsmenn Alusuisse þekkja þeir vel til á Íslandi. Framkvæmdastjóri Kapla hf. hefur verið ráðinn Age Jan de Vries, sem er Hollendingur. Hann starfaði frá 1975 til ársins í ár sem forstöðumaður og byggingastjóri hjá Aluminium Bahrain við Persaflóa þar sem hann stjórnaði fjárfestingarverkefnum sem nema 4 milljörðum bandaríkjadollara. Einnig er hann vel þekktur í áliðnaðinum. Þróunarfélagið mun hafa með höndum undirbúning við verkefnið svo sem gerð umhverfismats, fýsileikakönnun og samskipti við stjórnvöld og aðra aðila sem semja þarf við vegna verkefnisins.

Samkvæmt aðgerðaráætluninni mun Markaðsskrifstofa iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar fyrir hönd stjórnvalda starfa með þróunarfélaginu að sameiginlegum undirbúningi verkefnisins. Þróunarfélagið hefur þegar ráðið verkfræðistofuna Hönnun hf. til að vinna að gerð umhverfismats fyrir væntanlega rafskautaverksmiðju en samkvæmt aðgerðaáætluninni er gert ráð fyrir því að í árslok 2004 liggi fyrir umhverfismat og starfsleyfi vegna verksmiðjunnar og að samningsaðilar hafi tekið fullnaðarákvörðun um hvort framhald verði á verkefninu eða ekki.

Nánari upplýsingar veitir Garðar Ingvarsson MIL, sími 515 9000, tölvupóstur: [email protected]
Reykjavík, 26. september 2003.

Press Release - Katanes


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum