Hoppa yfir valmynd
7. október 2003 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Dagur íslenskrar tungu, 16. nóvember 2003 (7.10.2003)

Ágæti viðtakandi
Fyrir átta árum ákvað ríkisstjórnin að fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember, yrði dagur íslenskrar tungu ár hvert. Menntamálaráðuneytið hefur síðan árlega beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það, í góðu samstarfi við skóla, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga enda virðist dagur íslenskrar tungu hafa náð fótfestu í samfélaginu.

Hér með er hvatt til þess að landsmenn hugi nú, eins og undanfarin ár, að því að nota 16. nóvember eða dagana þar í kring til að hafa íslenskuna í öndvegi. Enda þótt 16. nóvember 2003 sé sunnudagur er ástæða til að árétta að skólar og stofnanir geta allt eins skipulagt viðburði undir merkjum dags íslenskrar tungu dagana á undan eða eftir 16. nóvember.

Hægt er að minnast dagsins með margvíslegu móti. Nefna mætti sem dæmi ljóðalestur, upplestrarkeppni, ritunarsamkeppni, verðlaun og viðurkenningar, handritasýningar, samkomur af ýmsum toga, tónlistarflutning þar sem einungis væri sungið á íslensku, upplestur úr nýjum eða eldri bókum o.m.fl.

Menntamálaráðuneytið hefur falið Íslenskri málstöð að annast ýmsa verkþætti í tengslum við viðburði á degi íslenskrar tungu 2003. Viðtakendum þessa bréfs er velkomið að hafa samband við málstöðina ([email protected], s. 552 8530) ef spurningar vakna og einnig væri gagnlegt að heyra frá sem flestum um það hvað stendur til að gera í tilefni dagsins. Heimasíða dags íslenskrar tungu er: http://mrn.stjr.is/mrn/dit/


Með vinsemd og virðingu

f.h. menntamálaráðuneytis
f.h. Íslenskrar málstöðvar
Guðni Olgeirsson
Ari Páll Kristinsson








Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum