Hoppa yfir valmynd
7. október 2003 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Mennt er máttur- sérkennsla í framhaldsskólum, kynningarmyndband (7.10.2003)

Til framhaldsskóla, skólaskrifstofa
og ýmissa annarra aðila


Árið 2003 er helgað málefnum fatlaðra á vettvangi Evrópska efnahagssvæðisins. Áherslur Evrópuþjóða beinast að því að vekja almenning til vitundar um réttindi þeirra sem búa við fötlun. Einkunnarorð ársins eru: Eitt samfélag fyrir alla.

Í tilefni af ári fatlaðra sendir menntamálaráðuneytið framhaldsskólum, skólaskrifstofum og ýmsum öðrum aðilum myndbandið Mennt er máttur, sem segir skólasögu tveggja seinfærra nemenda í framhaldsskóla. Sérnámsbraut Borgarholtsskóla var veittur styrkur úr Þróunarsjóði framhaldsskóla og var styrkurinn nýttur til að láta gera heimildamynd um sérnámsbraut skólans. Í myndinni er fylgst með námi tveggja einstaklinga sem hófu nám á sérnámsbrautini árið 1998. Myndinni lýkur á því að þessir einstaklingar útskrifast úr skólanum eftir fjögurra ára nám. Í myndbandinu kemur glöggt fram hvernig námið er byggt upp þar sem lögð er áhersla á að leggja grunn að lífi og starfi eftir að skólagöngu lýkur. Einnig kemur fram í myndbandinu hvernig allir nemendur skólans kynnast nemendum sérnámsbrautar og fá þannig innsýn í fjölbreytni og breidd nemendahópsins og mannlífsins.

Myndin getur verið gott innlegg í lífsleiknikennslu í grunn- og framhaldsskólum og hún er einnig hugsuð sem hvatning til áframhaldandi framfara og fjölbreyttara skólasamfélags og skóla án aðgreiningar.

Menntamálaráðuneytið væntir þess að myndin veki til umhugsunar um margbreytileik mannlífsins og veiti jafnframt innsýn í skólagöngu fatlaðra nemenda nú á ári fatlaðra undir kjörorðinu: Eitt samfélag fyrir alla.


(Október 2003)


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum