Hoppa yfir valmynd
10. október 2003 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisþing hefst á þriðjudag

Umhverfisráðherra hefur boðað til umhverfisþings 14. – 15. október n.k. Þingið verður á Nordica hótelinu og hefst kl. 9. n.k. þriðjudag.

Á þinginu mun umhverfisráðherra kynna drög að náttúruverndaráætlun sem lögð verða fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu í vetur. Faglegur grunnur áætlunarinnar verður einnig kynntur. Gerð náttúruverndaráætlunar markar tímamót í náttúruverndarmálum á Íslandi og á þinginu gefst fulltrúum félagasamtaka, stofnana, sveitarfélaga og annarra tækifæri til að fjalla um hana og stöðu náttúruverndarmála almennt. Umhverfisþing er vettvangur umræðu um umhverfismál sem umhverfisráðherra skal boða til annað hvert ár, og ætlað er að kalla fram öll helstu sjónarmið í málaflokknum.

Umhverfisráðherra Kanada, David Anderson, verður sérstakur heiðursgestur þingsins og mun ávarpa það á þriðjudagsmorgun. David Anderson hefur verið áberandi í alþjóðlegri umræðu um umhverfismál á síðustu árum og var nýlega formaður stjórnarnefndar Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP). Roger Crofts, varaforseti Alþjóða náttúruverndarsamtakanna (IUCN) fyrir Evrópu og fyrrverandi framkvæmdastjóri Skoska Náttúruverndarráðsins (Scottish Natural Heritage), mun halda erindi um alþjóðlega strauma í náttúruvernd á umhverfisþinginu.

Á þinginu munu sveitarfélög, félagasamtök og landnotendur kynna sjónarmið sín um drög að náttúruverndaráætlun. Vinnuhópar á þinginu munu taka fyrir og fjalla um eftirfarandi málefni:

    1. umsjón með friðuðum svæðum og aðkomu heimamanna
    2. vísindalegan bakgrunn Náttúruverndaráætlunar og alþjóðlegt samhengi
    3. framtíðarviðfangsefni í náttúruvernd.


Þingið er opið almenningi og stendur skráning yfir í afgreiðslu umhverfisráðuneytisins og á heimasíðu þess.

Fréttatilkynning nr. 34/2003
Umhverisráðuneytið


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum