Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2003 Matvælaráðuneytið

Tillögur nefndar um vanda sauðfjárbænda


Í framhaldi af umræðum í ríkisstjórn 7. nóvember sl., þar sem kynntar voru tillögur og niðurstöður nefndar um vanda sauðfjárbænda dags. 5. nóvember 2003, samþykkti ríkisstjórnin eftirfarandi á fundi sínum í dag:

1. Að veitt verði 140 m.kr. aukafjárveiting á fjáraukalögum á árinu 2003 til að greiða sauðfjárbændum bætur vegna tekjusamdráttar. Litið er á bæturnar sem byggðastuðning og greiðast þær sem eingreiðsla fyrir lok þessa árs. Stuðningurinn skal að hálfu miðaður við beingreiðslurétt sauðfjárbænda árið 2003 og að hálfu greiddur út á framleitt magn dilkakjöts á lögbýlum á árinu 2003.

2. Að heimila þeim sauðfjárbændum er náð hafa 63 ára aldri að halda óskertum beingreiðslum til loka samnings um framleiðslu sauðfjárafurða til 2007, án skyldu um sauðfjáreign.

3. Að fela utanríkisráðuneytinu að styðja við markaðssetningu dilkakjöts erlendis í samstarfi við þá aðila sem við þetta hafa unnið.

4. Að ríkisstjórnin sé tilbúin til að endurskoða einstaka þætti núgildandi samnings um framleiðslu sauðfjárafurða, eða gera nýjan samning, komi um það formleg ósk frá Bændasamtökum Íslands.

5. Að fela viðskiptaráðherra og landbúnaðarráðherra að skipa sameiginlega nefnd er skoði stöðu búvöruframleiðslu gagnvart samkeppnislögum.


Jafnframt samþykkti ríkisstjórnin eftirfarandi tilmæli:

a) Að beina því til Byggðastofnunar að hún styrki sláturleyfishafa til kaupa á nútímalegum fjárflutningatækjum.

b) Að beina því til Lánasjóðs landbúnaðarins að sauðfjárbændum sem eiga í fjárhagsörðugleikum verði gefinn kostur á að fresta afborgunum lána hjá sjóðnum í allt að þrjú ár.

c) Að fela Byggðastofnun að gera tillögur um með hvaða hætti hægt sé að tryggja áframhaldandi rekstur ullarþvottastöðvar í landinu.

Nefndarálitið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum