Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2003 Dómsmálaráðuneytið

Starfshópur um úttekt á varnarviðbúnaði vegna eiturefna-, sýkla- og geislavopna.

Á fundi ríkisstjórnar 21. október 2003 var samþykkt tillaga dómsmálaráðherra um skipun starfshóps embættismanna til að gera úttekt á varnarviðbúnaði vegna hugsanlegrar notkunar eiturefna-, sýkla- og geislavopna hér á landi og í framhaldinu leggja fram tillögur til úrbóta, með það að markmiði að viðbúnaður hér á landi verði fullnægjandi.

Á fundi ríkisstjórnar 21. október 2003 var samþykkt tillaga dómsmálaráðherra um skipun starfshóps embættismanna til að gera úttekt á varnarviðbúnaði vegna hugsanlegrar notkunar eiturefna-, sýkla- og geislavopna hér á landi og í framhaldinu leggja fram tillögur til úrbóta, með það að markmiði að viðbúnaður hér á landi verði fullnægjandi.


Starfshópinn skipa:
Arnór Sigurjónsson, sendifulltrúi formaður
Sigurbjörg Gísladóttir, forstöðumaður hjá Umhverfisstofnun,
Sveinn Magnússon, skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneyti og
Hafþór Jónsson, deildarstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

Lagt er fyrir hópinn að hafa náið samráð við stofnanir með aðkomu að framangreindum málaflokki, þ.e. Landlæknisembættið, Geislavarnir ríkisins og Landhelgisgæsluna.

Varnir og varrúðarráðstafanir gegn gereyðingarvopnum á borð við eiturefna-, sýkla og geislavopn eru meðal helstu viðfangsefna ríkisstjórna vestrænna þjóða. Hættan á hermdar- og hryðjuverkum, þar sem slíkum vopnum kynni að verða beitt, er talin ein stærsta ógn fyrir borgara hins vestræna heims nú á tímum. Á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Prag í nóvember 2002 var ákveðið að grípa til sameiginlegra aðgerða á þessu sviði með þátttöku allra aðildarþjóða, þ.á m. Íslands.

Verkefni starfshópsins er að huga að nauðsynlegum viðbrögðum af Íslands hálfu í samræmi við samþykkt leiðtogafundar NATO. Einnig að huga að þörfinni hér á landi fyrir hlífðarföt, mælitæki, hreinsibúnað, lyf og læknisaðstoð. Þá hafa íslensk stjórnvöld skuldbundið sig til að tryggja, að öll framlög borgaralegra sérfræðinga til friðaraðgerða á vegum Atlantshafsbandalagsins eða Evrópusambandsins séu háð því að viðkomandi aðilar séu m.a. búnir hlífðarfötum og mótefnum til varnar hugsanlegri notkun gereyðingarvopna og hafi kunnáttu í notkun og meðferð þeirra á sama hátt og aðrir þátttakendur. Starfshópurinn skal einnig gera tillögu um samstarf við önnur ríki í þessum efnum og í því sambandi líta til ríkja utan NATO eins og til dæmis Svíþjóðar. Í samráði við dómsmálaráðherra hefur starfshópurinn heimild til að kalla hingað til lands erlenda sérfræðinga til samráðs, ef nauðsyn krefst.

Lagt er fyrir hópinn að skila úttekt sinni á varnarviðbúnaði og tillögum til úrbóta eigi síðar en 1. febrúar nk.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum