Hoppa yfir valmynd
27. nóvember 2003 Matvælaráðuneytið

Fréttatilkynning frá iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra.

Nr. 21/2003

FRÉTTATILKYNNING

Frá iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra

Verkefnisstjórn um gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma skilaði í dag Valgerði Sverrisdóttur, iðnaðarráðherra, og Siv Friðleifsdóttur, umhverfisráðherra, skýrslu um 1. áfanga verkefnisins. Þar eru 35 virkjunarkostir vatnsafls og háhita til raforkuframleiðslu flokkaðir eftir umhverfisáhrifum, heildarhagnaði og arðsemi.

Aðferðafræðin við mat á virkjunarkostum er nýmæli hérlendis. Við mat á náttúrufari er byggt á alþjóðlegum aðferðum og viðmiðum en aðferðafræðin þróuð og staðfærð í faghópum rammaáætlunar. Einn faghópur fjallaði um náttúrufar og minjar, annar um útivist og hlunnindi, sá þriðji um þjóðhagsmál, atvinnulíf og byggðaþróun og sá fjórði um hagkvæmni og arðsemi virkjunarkosta. Hóparnir skiluðu niðurstöðum til verkefnisstjórnar sem samþætti þær og flokkaði innbyrðis. Leggja ber sérstaka áherslu á að mat og flokkun eru gerð með samanburði einstakra virkjunarkosta, en ekki er lagður sérstakur mælikvarði á hvern virkjunarkost.

Aðferðafræði og vinnulag við skýrsluna eru tvímælalaust fallin til að stuðla að upplýstri umræðu og sátt um val virkjunarkosta og þar með um mikilvægar forsendur í viðkvæmri þjóðmálaumræðu, eins og til var stofnað þegar ríkisstjórnin ákvað að hefja vinnu við rammaáætlunina. Niðurstöður skýrslunnar

leggja einnig til forsendur, sem ekki hafa áður verið aðgengilegar, til að kanna heildstætt marga kosti samtímis við undirbúning nýrrar virkjunar.

Flokkun virkjunarkosta

Virkjunarkostum er í skýrslunni raðað eftir

umhverfisáhrifum (tafla 5.10 bls. 61),

heildarhagnaði (tafla 5.11 bls. 62),

arðsemi (tafla 5.12 bls. 63).

Virkjunarkostum er skipt í fimm flokka (a-e) eftir umhverfisáhrifum, fimm eftir heildarhagnaði og fimm eftir arðsemi. Ætla má að virkjanir sem falla undir flokka a og b í umhverfisáhrifum verði síður umdeildar. Þar má nefna jarðvarmavirkjanir, svo sem í Bjarnarflagi, á Hellisheiði og á Reykjanesi. Af vatnsaflsvirkjunum má nefna Núpsvirkjun, Urriðafossvirkjun og Hólmsárvirkjun.

Hins vegar má gera ráð fyrir meiri ágreiningi um virkjanir í flokkum umhverfisáhrifa d og e. Nefna má jarðvarmavirkjanir á Torfajökulssvæðinu og vatnsaflsvirkjanir í Jökulsá á Fjöllum og Markarfljóti.

Iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra telja eðlilegt, á grundvelli niðurstöðu skýrslunnar, að undirbúningur nýrra virkjana beinist á næstu árum að virkjunarkostum sem falla undir flokka umhverfisáhrifa a-c. Ekki sé þó hægt að útiloka nýtingu virkjunarkosta er falla í flokka umhverfisáhrifa d og e þegar til lengri tíma er litið. Ákvörðun um nýtingu þeirra kosta verði ekki tekin án frekari gagnaöflunar og rannsókna.

Hvernig nýtast niðurstöðurnar?

Niðurstöður rammaáætlunar koma að margvíslegu gagni.

Þær nýtast til dæmis

stjórnvöldum sem grunnur að stefnumörkun í orku- og náttúruverndarmálum.

iðnaðarráðherra við að marka stefnu um frumrannsóknir ríkisins í orkumálum og við útgáfu rannsóknar- og nýtingarleyfa nýrra virkjana.

umhverfisráðherra við gerð náttúruverndaráætlunar sem hann skal lögum samkvæmt leggja fyrir Alþingi á fimm ára fresti, í fyrsta sinn í vetur.

stjórnvöldum við mat á umhverfisáhrifum skipulagsáætlana.

stjórnvöldum og sveitarfélögum við skipulagsvinnu af ýmsu tagi.

orkufyrirtækjum og Orkustofnun til að velja vænlega virkjunarkosti.

stjórnvöldum, orkufyrirtækjum og öðrum til rannsókna á umhverfi og náttúru landsins í framtíðinni með aðferðum sem Náttúrufræðistofnun Íslands þróaði í vinnu vegna rammaáætlunar.

Opið samráðsferli

Í vinnu við 1. áfanga rammaáætlunar var viðhaft opið samráðsferli. Landvernd annaðist samráðsvettvang verkefnisstjórnar, faghópa, stofnana, fyrirtækja, samtaka og almennings með heimasíðu um verkefnið, kynningu á opnum fundum, útgáfustarfsemi og upplýsingamiðlun til fjölmiðla. Samtals hefur verkefnisstjórn rammaáætlunar haldið 22 almenna kynningarfundi á mörgum stöðum á landinu á meðan unnið var að 1. áfanga rammaáætlunar.

Kostnaður

Áætlað er að heildarkostnaður við 1. áfanga rammaáætlunar verði 555 milljónir króna, þar af hefur um 280 milljónum króna verið varið til rannsókna á náttúrufari og háhitasvæðum. Orkusjóður greiðir stærstan hluta heildarkostnaðar en kostnaður er að öðru leyti borinn uppi af fjárveitingum til Orkustofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Auk þess hafa orkufyrirtækin, Landsvirkjun, Rafmagnsveitur ríkisins, Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja, lagt verkefninu til gögn, vinnu og fjármuni.

Fyrsta áfanga lokið, hvað svo?

Verkefnisstjórn um rammaáætlun hefur starfað samkvæmt verklýsingu iðnaðarráðherra, sem unnin var í samráði við umhverfisráðherra. Vinnan hófst með skipan verkefnisstjórnar í apríl 1999. Verkefnisstjórnin mótaði aðferðir til að bera saman virkjunarkosti og skilar niðurstöðum í 1. áfanga með samanburði á 35 kostum í jarðhita og vatnsafli.

Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar verður áfram unnið að frekari rannsóknum á virkjunarkostum sem komu til álita nú en of lítið er um vitað og á mörgum öðrum ókönnuðum kostum sem nauðsynlegt er að fjalla um í 2. áfanga rammaáætlunar.

Í verkefnisstjórn 1. áfanga sátu 16 manns. Auk þess störfuðu fjórir faghópar og í hverjum þeirra voru 8-14 manns. Aðferðafræði og verklag hafa verið mótuð í 1. áfanga rammaáætlunar. Því er gert ráð fyrir að skipa nýja og fámennari verkefnisstjórn til að stýra vinnu við rannsóknir og undirbúning 2. áfanga rammaáætlunar.

Reykjavík, 27. nóvember 2003.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum