Hoppa yfir valmynd
2. desember 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Málþing rektors Háskóla Íslands varðandi Evrópuár fatlaðra 2003

Málþing Háskóla Íslands
Málþing Háskóla Íslands

Ágætu málþingsgestir

Einkunnarorð Evrópuárs fatlaðra árið 2003 er eitt samfélag fyrir alla. Að baki þessum orðum liggur það háleita markmið að allir fatlaðir, hversu mikil sem fötlun þeirra er eða hvar sem þeir búa, eigi þess kost að lifa í samfélagi þar sem þeir geti notið allra þeirra gæða sem ófötluðum er boðið upp á.

Til þess að við getum rætt um samfélag fyrir alla þurfa allir að vera þátttakendur í því og skynja að þeir eigi hlutdeild í stærra samspili sem allt myndar samofna heild, lífið sjálft. Með því að vera þátttakandi í slíku samspili fær hver og einn einstaklingur tilfinningu fyrir því að hann sé að taka þátt í einhverju sem er verðugt og dýrmætt, ekki bara fyrir hann sjálfan heldur einnig fyrir þá einstaklinga sem hann er samferða í gegnum lífið. Úr þessu samspili verður til það sem við köllum sjálfsvirðingu og ef vel tekst til gefur það hverjum og einum tækifæri til þess að skapa, þróa og göfga sjálfan sig og umhverfi sitt.

Umræðan um þá mismunun sem margt fatlað fólk býr við hefur á allra síðustu árum orðið ágengari meðal þjóða heims. Krafan um jafnan rétt hefur fengið á sig kröftugri og skýrari mynd. Umræðan hefur aukið þekkingu samfélagsins á því hvernig unnið hefur verið að málefnum fatlaðra og leitt til breytinga á viðhorfum til þeirra. Það eru ekki mörg ár síðan litið var á fatlaða sem annars flokks manneskjur, sem ekki höfðu tilfinningar eða venjulegar þarfir og óskir sér til handa eins og annað fólk. Þessi afstaða er sem betur fer á undanhaldi og við taka skoðanir sem grundvallast á því að fatlaðir eru jafngildir öðrum manneskjum. Þessi nýju viðhorf beinast að því að gera sér grein fyrir því að fatlaðir hafa sömu grundvallarþarfir og annað fólk. Þeir vilja eignast eigið heimili, fjölskyldur, sækja skóla, vera í vinnu, eiga vini og stunda frístundir svo fátt eitt sé nefnt.

Í þessu samhengi er einnig brýnt að benda á að við þessa sýn á manneskjuna verður allt fatlað fólk, meðborgarar með sama rétt og aðrir þegnar í samfélaginu.

Viðhorf til fatlaðra hafa í gegnum tíðina verið neikvæð og yfirleitt beinst að skertri getu þeirra og því sem hindrar þátttöku þeirra í samfélaginu. Með breyttu hugarfari þar sem horft er til möguleika hvers og eins til aukins þroska er lagður grunnur að jákvæðari sýn. Öll þurfum við einhvern tímann á lífsleiðinni á stuðningi að halda frá umhverfi okkar til þess að taka þátt í samfélaginu. Hversu mikill sá stuðningur er verður að meta í hverju og einu tilviki. Rétturinn til þeirrar aðstoðar sem þörf er á er hugmyndafræðileg spurning um það hvað samfélagið telur vera rétt og sanngjarnt.

Hugmyndafræðin leggur áherslu á að hver og einn einstaklingur eigi rétt á þeim stuðningi sem gerir honum kleift að taka þátt í lífi og starfi samfélagsins á svipuðum forsendum og aðrir. Það kallar til dæmis á það að atvinnulífið verður að taka tillit til fötlunar og þá um leið til þess stuðnings sem hver og einn hefur þörf fyrir.

Jákvæð mismunun er lykilatriði í þessu samhengi. Þeir einstaklingar sem hafa sérstakar þarfir eiga að fá nauðsynlegan stuðning til að þessar þarfir verði þeim sem minnst hindrun í að takast á við lífið. Mismununin er jákvæð vegna þess að hún gerir þeim kleift sem ekki hafa sömu forsendur og aðrir, tækifæri til að njóta þeirra gæða sem samfélagið býður upp á.

Að bregðast við áhrifum fötlunar er ekki bara á ábyrgð þeirra sem eru fatlaðir heldur einnig og miklu frekar á ábyrgð samfélagsins sem er þannig úr garði gert að þeir einstaklingar sem lifa í því þurfa stöðugt að vera að takast á við hindranir sem rýra möguleika þeirra á öllum sviðum.

Ef við erum tilbúin að takast á við þetta verkefni af fullri alvöru og breyta því sem þarf þá eru til dæmis möguleikar fatlaðra til atvinnu lítil takmörk sett. Það er skýrt markmið að fatlaðir séu þátttakendur á almennum vinnumarkaði að svo miklu leyti sem þess er nokkur kostur. Við þurfum að vera meðvituð um það að öll höfum við þurft stuðning, mismikinn eftir aðstæðum, til þess að geta skilað þeim verkum sem okkur eru falin. Það er mikilvægt að stuðningnum sé þannig háttað að honum ljúki ekki um leið og viðkomandi hefur stígið sín fyrstu skref úti á vinnumarkaðnum. Það er raunar þá sem hann skiptir hvað mestu máli til að árangur náist. Stuðningurinn felst því ekki einungis í því að fá vinnu heldur halda henni til langframa.

Í samfélagi okkar eru notuð mörg úrræði sem hafa það að markmiði að fatlaðir fái atvinnu við hæfi. Sú leið sem vakið hefur sérstaka athygli, er Atvinna með stuðningi sem hefur reyndar verið notuð víða erlendis í áratugi en hefur verið að festa sig í sessi á Íslandi á síðastliðnum fimm til tíu árum. Þessi leið leggur áherslu á mikið markvissari stuðning og leiðbeiningu en við höfum áður þekkt við þann sem er fatlaður og stefnir út á vinnumarkaðinn. Bent er á mikilvægi öflugrar viðhorfavinnu á vinnustöðum þar sem samstarfsmönnum og yfirmönnum er boðið upp á öfluga fræðslu og umræðu.

Í þessu samhengi er ekki einungis lögð áhersla á þau tækifæri, til aukinna lífsgæða, sem fötluðum standa til boða heldur er hér um að ræða tækifæri fyrir vinnustaðina þar sem starfsfólk með margskonar reynslu þroskar starfsumhverfið. Þessi leið er ein þeirra sem líkleg er til að skila góðum árangri. Leiðirnar eru því fjölmargar sem stuðlað geta að frekari þróun í atvinnumálum fatlaðra.

Ávinningur þess að fatlaðir fái atvinnu er ótvíræður. Ekki síst fyrir hinn fatlaða sem þá er virkur þátttakandi í atvinnulífinu og hefur tækifæri til að njóta lífsgæða eins og aðrir í þjóðfélaginu. Fyrir samfélagið er ávinningurinn meðal annars sá að þar kemur til starfa þjóðfélagsþegn sem stendur skil á sínum sköttum og skyldum og gerir um leið samfélagið ríkara í fjölbreyttum skilningi.

Í samfélagi framtíðarinnar munum við standa frammi fyrir mörgum verkefnum sem geta verið erfið úrlausnar. Góður faglegur undirbúningur slíkra verkefna er hverju samfélagi nauðsynlegur. Í dag hefur félagsmálaráðuneytið lagt sitt að mörkum til þess að gera þessa leið greiðfærari með því kosta stöðu í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands. Þessi ákvörðun markar ákveðin tímamót í þjónustu við fatlaða á Íslandi þar sem nú er stofnað til fyrsta starfs á þessu sviði sem er ætlað að efla og styrkja fræðastarf og hvetja til rannsókna og framþróunar í málaflokki fatlaðra. Ég bind miklar vonir við það að þessi ákvörðun eigi eftir að verða okkur öllum til hagsbóta. Ég vil þakka Rannveigu Traustadóttur fyrir hennar þátt í þessu máli.

Í nánustu framtíð mun félagsmálaráðuneytið leggja vinnu í stefnumótun í málefnum fatlaðra þar sem framtíðarsýnin verður skilgreind. Lagt verður upp með leiðarljós á þessari leið og óskað verður eftir víðtækri þátttöku þeirra sem hagsmuna eiga að gæta svo og alls almennings. Það er ljóst að raunhæf stefnumótun byggir á sterkri fræðilegri undirstöðu þar sem sótt er til fjölda fræðigreina eftir þekkingu og skilningi. Samstarf Háskóla Íslands og félagsmálaráðuneytisins mun því hafa veruleg áhrif.

Það er von mín að þetta málþing sem haldið er hér í dag verði árangursríkt og leiði umræðuna enn frekar í átt að því að bæta stöðu fatlaðra í samfélaginu, okkur öllum til hagsbóta.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum