Hoppa yfir valmynd
30. desember 2003 Matvælaráðuneytið

Markaðsskrifstofa iðnaðarráðuneytis og Landsvirkjunar lögð niður.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra og Friðrik Sophusson forstjóri Landsvirkjunar hafa í dag undirritað samkomulag um lok samstarfs um Markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar (MIL). Samkomulagið tekur gildi þann 1. janúar 2004.

MIL hefur verið rekin á grundvelli samstarfssamnings iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar frá árinu 1988 og hefur haft það hlutverk að vinna að öflun erlendrar fjárfestingar á sviði orkufreks iðnaðar. Starfsemi skrifstofunnar hefur skilað mjög góðum árangri. Meðal verkefna sem MIL hefur unnið að má nefna stækkun álverksmiðjunnar í Straumsvík og byggingu álvera á Grundartanga og í Reyðarfirði. Það er sameiginleg niðurstaða eigendanna að það sé heppilegt að slíta samstarfinu nú af ýmsum ástæðum. Þar vegur þyngst nýskipan raforkumála sem byggir á samkeppni í raforkuframleiðslu. Því þykir ekki eðlilegt að iðnaðarráðuneytið starfræki markaðsskrifstofu í samstarfi við einn orkuframleiðanda.

Samkvæmt samkomulaginu munu iðnaðarráðuneytið og Landsvirkjun hafa samstarf næstu tvö árin um nokkur verkefni sem eru í vinnslu hjá MIL. Þar má nefna málefni rafskautaverksmiðju í Hvalfirði, álþynnuverksmiðju og stóriðjumál á Norðurlandi.

Þrír af fjórum starfsmönnum MIL hefja störf hjá Landsvirkjun þann 1. janúar n.k. Það eru Garðar Ingvarsson, sem gengt hefur starfi framkvæmdastjóra skrifstofunnar frá upphafi, Stefanía Víglundsdóttir og Hanna Marinósdóttir. Yfirverkfræðingur MIL, Andrés Svanbjörnsson mun hins vegar koma til starfa í iðnaðarráðuneytinu þann 1. janúar nk.

Reykjavík, 30. desember 2003.

Iðnaðarráðuneytið - Landsvirkjun

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum