Hoppa yfir valmynd
6. janúar 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Endurgreiðsla óheimil


Rétt er að taka fram vegna yfirlýsinga um annað að Tryggingastofnun ríkisins er óheimilt samkvæmt lögum að endurgreiða sjúklingi kostnað vegna þjónustu sérfræðilækna nema í gildi sé samningur læknis og Tryggingastofnunar.

Um þetta er fjallað í 36. og 39. grein almannatryggingalaganna þar sem fram kemur að sjúkratryggingar ná ekki til þjónustu sem veitt er utan sjúkrahúsa nema samið hafi verið um þá þjónustu. Sjúkratryggingaverndin er þannig takmörkuð, eða skilyrt að þessu leyti.

Með bréfi dags. 3. desember 2003 staðfesti formaður samninganefndar Læknafélags Reykjavíkur að "LR telur alla samninga LR og TR um sérgreinalækna úr gildi fallna 31.12.03 og að hvorugur aðila sé þá bundinn hinum að neinu leyti." Það er með öðrum orðum ekki rétt sem haldið hefur verið fram að Tryggingastofnun ríkisins, samninganefnd HTR eða heilbrigðismálaráðuneytið hafi numið úr gildi sjúkratryggingar almennings gagnvart sérfræðilæknum. Það gerðist þegar samningar voru látnir renna út og þess vegna getur Tryggingastofnun ríkisins ekki endurgreitt þeim sem leita til sérfræðilækna.

Þeir sem þurfa að leita læknisaðstoðar og vilja ekki eða geta ekki greitt uppsett gjald er bent á þjónustu heilsugæslustöðvanna, Læknavaktarinnar, Barnalæknaþjónustuna og göngudeildir spítalanna. Ráðuneytið hefur rætt við forsvarsmenn heilsugæslunnar og Landspítalans um að auka þjónustuna svo sem hægt er og verður fé flutt frá Tryggingastofnun til viðkomandi stofnana vegna þessa. Samningur er í gildi við Læknavaktina og tímabundinn tveggja mánaða samningur hefur verið gerður við Barnalæknaþjónustuna.

Einnig er fjallað um þetta mál á heimasíðu Tryggingastofnunar ríkisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum