Hoppa yfir valmynd
19. janúar 2004 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Norræna skólahlaupið 2003

Nemendur lögðu að baki vegalengd sem samtals samsvarar hlaupi rúmlega 43 sinnum kringum landið.



Rúmlega þriðjungur grunnskólanemenda hér á landi tók þátt í norræna skólahlaupinu í september - desember sl. og var það í 19. sinn sem skólahlaup þetta fór fram. Alls hlupu 15.639 nemendur úr 65 grunnskólum og 3 framhaldsskólum og lögðu samtals að baki 58.538,5 km. Til samanburðar má geta að þessi vegalengd, sem nemendurnir hlupu samtals, samsvarar því að hlaupið hafi verið rúmlega 43 sinnum kringum landið á hringveginum.

Með norræna skólahlaupinu er leitast við að hvetja nemendur, kennara og annað starfslið skólanna til þess að æfa hlaup og auka við hreyfingu sína. Lögð er áhersla á að kynna nauðsyn þess að hreyfa sig og reyna á líkama sinn á ýmsan hátt og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan. Keppt er að því fyrst og fremst að sem flestir, helst allir, verði með í hlaupinu í hverjum skóla og að þessu sinni hlupu allir nemendur 8 skóla.

Allir þátttakendur fengu sérstaka viðurkenningu og skólarnir hver fyrir sig viðurkenningarskjal sem Íslenskur mjólkuriðnaður veitti. Umsjón með norræna skólahlaupinu hefur íþrótta- og æskulýðsdeild menntamálaráðuneytisins í samvinnu við Íþróttakennarafélag Íslands.

Menntamálaráðuneytið, 19. janúar 2004

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum