Hoppa yfir valmynd
20. janúar 2004 Matvælaráðuneytið

Aðalfundur Samtaka fjárfesta 15. janúar 2004

Viðskiptalíf og fjármálamarkaður.

I.

Góðir aðalfundargestir. Það er gríðarleg gróska í íslensku viðskiptalífi um þessar mundir. Hver stórviðburðurinn rekur annan og það er hverjum manni ljóst að nú á sér stað meiri uppstokkun í íslensku viðskiptalífi en sést hefur um mjög langt skeið.

Rót þessara breytinga á viðskiptalífinu má m.a. rekja til afnáms hafta á fjármálamarkaði, EES-samningsins, einkavæðingar banka, skilvirkara regluverks og mótunar verðbréfamarkaðar. En það eru ekki aðeins stjórnvaldsaðgerðir sem leitt hafa til þessara breytinga heldur einnig viðbrögð markaðarins við nýfengnu frelsi. Þá hefur einnig komið fram ný og betur menntuð kynslóð sem haslar sér völl í atvinnulífinu af miklum móð. Fólk sem hefur menntað sig í hinum ýmsu greinum erlendis finnur t.d. störf við sitt hæfi á íslenskum fjármálamarkaði. Þetta fólk skapar verðmæti með nýjum hugmyndum og ferskir vindar leika í kjölfarið um íslenskt atvinnulíf. Hinn einsleiti og niðurnjörvaði fjármálamarkaður heyrir því sögunni til og í staðinn hafa komið þekkingarfyrirtæki fólks með fjölbreyttan bakgrunn.

Eru breytingar síðustu missera til góðs eða ills? Ég tel að þær séu að mestu leyti til góðs og vel hafi tekist til með mótun markaðarins. Engum vafa er undirorpið að þessar breytingar hafa leitt til betri lífskjara þjóðarinnar. Fyrirtæki eru orðin öflugri og samkeppnishæfari á erlendum mörkuðum og skila meiri hagnaði. Útrás íslenskra fyrirtækja hefur vakið mikla athygli. Flóra íslensks viðskiptalífs er sífellt að verða fjölbreyttari.

En er þá allt eins og það á að vera? Svarið við þeirri spurningu er nei. Aukin hagræðing og hraðar breytingar á eignarhaldi fyrirtækja hafa leitt til meiri samþjöppunar og minni samkeppni í einstökum atvinnugreinum. Þá hafa ýmis viðskipti á verðbréfamarkaði vakið upp spurningar um hvort stjórnunarhættir hlutafélaga séu með þeim hætti sem best gerist. Einnig hefur mikil umræða verið um þróun regluverks og opinbers eftirlits með viðskiptalífinu.

Dagleg viðskipti á verðbréfamarkaði, meiri samþjöppun og viðamiklar rannsóknir eftirlitsaðila hafa gert það að verkum að viðskiptalífið virðist ekki njóta nægilegs trausts almennings. Í skoðanakönnun Viðskiptablaðsins nú í vikunni kom fram að um helmingur þjóðarinnar telur viðskiptasiðferði vera lélegt eða mjög lélegt. Einungis 14% telja það gott eða mjög gott. Í sömu könnun kom fram að meirihluti þjóðarinnar telur að setja eigi lög um hringamyndun. Þessar tölur eru sláandi. Það eru ekki bara stjórnvöld sem eiga að velta því fyrir sér hvernig bregðast eigi við heldur er mjög mikilvægt að viðskiptalífið sjálft taki sér tak.

Ég tel að við þau tímamót sem orðið hafa að undanförnu með sölu banka í eigu ríkis og breytingar á eignarhaldi fyrirtækja á markaði sé nauðsynlegt að líta yfir farinn veg og leggja drög að frekari stefnumótun um umhverfi íslensks viðskiptalífs. Það verður gert með faglegum hætti á næstu mánuðum. Það verður að vanda til verks enda væri betur heima setið en fara með óðagoti af stað með breytingar sem sköpuðu fleiri vandamál en þær leystu.

II.

Góðir aðalfundargestir. Ég ætla þá að víkja stuttlega að fjármálamarkaði sérstaklega. Ríkið hefur ekki lengur hlutverki að gegna sem eigandi á fjármálamarkaði. Hlutverk ríkisins er og verður fyrst og fremst að bæta samkeppnishæfni fjármálamarkaðarins og gæta hags viðskiptamanna fjármálafyrirtækja. Af nógu er að taka í því efni því markaðnum fleygir fram og fjármálalöggjöf sömuleiðis.

 

Við þurfum að nýta okkur fjármálalöggjöfina til að búa til sem bestar aðstæður fyrir íslensk fjármálafyrirtæki. Með því á ég ekki við að regluverk sem þessi fyrirtæki búa við sé sem léttbærast fyrir þau. Þau ríki sem þannig hafa búið um hnúta njóta almennt ekki trausts. En regluverkið verður að vera skilvirkt og réttlátt. Það getur ekki verið markmið í sjálfu sér að regluverkið sé sem umfangsmest.

Regluverk á fjármagnsmarkaði er til muna meira heldur en í flestum öðrum atvinnugreinum. Það kemur til af mikilvægi fjármagnsmarkaðarins í hagkerfinu. Fjármálafyrirtæki geyma sparnað almennings, veita almenningi og fyrirtækjum lán og ráðgjöf og sinna greiðslumiðlun. Fjármálafyrirtæki eiga allt sitt undir trausti viðskiptavina. Viðskiptavinir fyrirtækjanna verða að geta treyst því fullkomlega að hagsmunir þeirra sitji í fyrirrúmi en ekki hagsmunir fyrirtækisins sjálfs, starfsmanna þess eða aðrir hagsmunir. Þetta er lykilatriði. Gjaldþrot eins fjármálafyrirtækis hefur víðtækari áhrif á virkni hagkerfisins heldur en í öðrum atvinnugreinum. Með umfangsmiklu eftirliti og ítarlegri reglusetningu reyna stjórnvöld því að stuðla að sem mestu öryggi í starfsemi fjármálafyrirtækja.

 

Grunnur flestra laga á fjármagnsmarkaði var að mestu mótaður um það leyti sem við Íslendingar skrifuðum undir EES-samninginn. Það var mjög stórt skref á sínum tíma. Við uppfylltum tilskipanir Evrópsambandsins á mjög skömmum tíma og höfum síðan verið að byggja ofan á þann grunn. Nú hefur grunnurinn að mestu verið endurskoðaður með nýjum lögum um fjármálafyrirtæki, lögum um verðbréfaviðskipti og lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði.

En það er margt fleira í farvatninu. Á næstu tveimur árum verður meiri samræming á verðbréfamarkaði innan EES-svæðisins heldur en áður hefur sést. Fimm mikilvægar tilskipanir á verðbréfamarkaði hafa verið samþykktar eða eru í burðarliðnum. Á grunni þeirra mun framkvæmdastjórnin gefa út undirtilskipanir sem einnig þarf að innleiða í íslenskan rétt. Þetta eru tilskipanir um fjárfestingarþjónustu, innherjaviðskipti og markaðsmisnotkun, útboðslýsingar, yfirtökur og upplýsingagjöf til kauphallar. Þessar tilskipanir eru hluti af hinum svokallaða Lamfallussy ferli innan Evrópusambandsins sem miðar að því að evrópskur verðbréfamarkaður verði í fremstu röð í heiminum árið 2005. Þessar breytingar munu skipta miklu máli í þróun íslensks verðbréfamarkaðar.

 

III.

Mörgum þykir sem hagsmunir smærri fjárfesta hafi verið fyrir borð bornir í stórviðskiptum viðskiptajöfranna. Löggjöf um hlutafélög og verðbréfaviðskipti á að tryggja að hagsmunir smærri fjárfesta séu tryggðir. Álitaefni er hins vegar hvenær hagsmunir þeirra eru tryggðir með fullnægjandi hætti. Ég vil nefna hér þrjú atriði sem verið hafa í umræðunni.

Hið fyrsta eru kínamúrar og hvort þeir líkist meira þykkum kínverskum múrum eða þunnum japönskum skilrúmum. Það skiptir miklu máli fyrir almenning og viðskiptavini að geta treyst því að ekki séu til staðar hagsmunaárekstrar innan bankanna. En það má ekki gleyma því að það eru hagsmunir bankanna sjálfra að sjá til þess að traustið og trúverðugleikinn sé til staðar. Það er augljóst að það getur verið erfitt fyrir banka að eiga í fyrirtækjum vegna hugsanlegra hagsmunaárekstra.

 

Ég hef ekki ljáð máls á því að lögum verði breytt þannig að viðskiptabankar geti ekki sinnt fjárfestingarbankastarfsemi. Margir telja að svigrúm banka til að stunda atvinnurekstur sé nær ótakmarkað. Svo er ekki. Það eru í gildi margvíslegar reglur sem lúta að fjárfestingum banka í atvinnufyrirtækjum. Bankar geta ekki verið kjölfestufjárfestar í öðrum fyrirtækjum en fjármálafyrirtækjum. Þeir geta hins vegar til skamms tíma tekið yfir rekstur sem er í erfiðleikum og einnig geta þeir sinnt svokallaðri fjárfestingarbankastarfsemi, þ.e. að kaupa fyrirtæki í því skyni að sameina annarri starfsemi, selja almenningi eða umbreyta á annan hátt. Þá geta bankar keypt verðbréf til að eiga í stuttan tíma í því skyni að hagnast á verðbreytingum. Bönkum er hins vegar ekki heimilt að eiga í atvinnufyrirtækjum til langs tíma með áhrif í huga. Það er ekki hlutverk banka.

 

Annað atriðið sem ég vil nefna eru yfirtökur félaga en yfirtökur og afskráningar félaga hafa færst mjög í vöxt á undanförnum misserum. Stundum hefur komið upp gagnrýni frá smærri hluthöfum um hvernig staðið er að yfirtökum, sér í lagi hvaða verð yfirtökuaðilinn býður.

Ég tel að þessi gagnrýni eigi rétt á sér. Ég hef skipað nefnd til að fara heildstætt yfir yfirtökureglur. Þrennt hef ég falið nefndinni að skoða sérstaklega og gera tillögur um. Í fyrsta lagi að meta æskilegt hlutfall atkvæðisréttar sem leiðir til yfirtökuskyldu en það kann að vera verðbréfamarkaði til framdráttar að lækka yfirtökuskylduna úr 40% atkvæðisréttar niður í t.d. þriðjung. Í öðru lagi þarf nefndin að skilgreina tengsl á milli aðila, sér í lagi í ljósi sífellt flóknari tengsla á milli fyrirtækja. Í þriðja lagi mun nefndin fara yfir verð í yfirtökutilboðum.

 

Þriðja atriðið sem ég vildi nefna sem sérstakt hagsmunamál smærri fjárfesta er kostnaður við að eiga litla hluti í félögum. Það var mikil hagræðing þegar rafræn eignarskráning verðbréfa leysti gömlu pappírsbréfin af hólmi. Fyrstu árin var ekki tekið gjald fyrir geymslu bréfa á rafrænum reikningi en nú hafa einstaka bankar hafið slíka gjaldtöku.

Um þessa gjaldtöku er það að segja að augljóst er að hún hvetur ekki almenning til þátttöku á verðbréfamarkaðnum. Ef að Jón og Gunna úti í bæ þurfa að greiða þúsundir króna árlega fyrir rafræna geymslu verðbréfs sem er kannski nokkurra tuga þúsunda virði, þá liggur fyrir að þau litlu hjónin munu finna sparnaði sínum annan farveg. Bankar þurfa því að gæta þess að missa ekki litlu hluthafana út af verðbréfamarkaði og þeir hafa ákveðnum skyldum að gegna við uppbyggingu markaðarins.

 

IV.

Kæru aðalfundargestir. Samtök fjárfesta eiga sér nokkuð langa sögu. Það er mikil þörf á samtökum af þessu tagi. Samtökin eiga að veita markaðnum og stjórnvöldum uppbyggilegt aðhald. Það er erfið og vanþakklát sjálfboðavinna að koma svona samtökum á legg. Það er ósk mín að samtökin og verðbréfamarkaðurinn allur muni dafna vel í framtíðinni. Ég þakka fyrir tækifærið að fá að koma á þennan fund.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum