Hoppa yfir valmynd
22. janúar 2004 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Verulegur árangur af Olweusaráætlun gegn einelti í grunnskólum

Einelti hefur minnkað um 31% í 4. – 7. bekk og um 39% í 8. - 10. bekk samkvæmt niðurstöðum könnunar sem framkvæmd var í 45 grunnskólum sem taka þátt í Olweusaráætlun gegn einelti.

Einelti hefur minnkað um 31% í 4. – 7. bekk og um 39% í 8. - 10. bekk samkvæmt niðurstöðum könnunar sem framkvæmd var í 45 grunnskólum sem taka þátt í Olweusaráætlun gegn einelti.

Fjölmargar upplýsingar koma fram í könnuninni sem er afar yfirgripsmikil. Könnunin, sem fram fór í lok árs 2003, er liður í eineltisáætluninni sem staðið hefur yfir í eitt ár.

Í sambærilegri könnun fyrir ári sögðust 11,4% nemenda í 4.-7. bekk sæta einelti en nú 7,9%. Þá sögðust 7,7% nemenda í 8.-10. bekk verða fyrir einelti en nú 4,7%.

Gögnin eru byggð á svörum um 8200 nemenda hvort árið um sig og er meðaltal allra skólanna 6,6% úr hópnum öllum sem segjast vera lögð í einelti en 9,9% í fyrra.

Þá fækkar þeim um rúmlega þriðjung sem leggja aðra nemendur í einelti um 34% í yngri deildum og 35% á unglingastigi.

 

Viðbrögð skólanna við einelti og að koma í veg fyrir einelti hafa batnað til muna í samræmi við vinnuna í eineltisáætluninni. Kennarar og aðrir fullorðnir grípa frekar í taumana. 46% nemenda í 8. – 10. bekk segja að þau reyni að stöðva einelti en 39% nemenda svöruðu á sama veg í fyrra. 42% nemenda í 8. – 10. bekk segja að umsjónarkennarar geri ”fremur lítið” eða ”lítið eða ekkert” til að koma í veg fyrir einelti í bekknum undanfarna mánuði. Í fyrra var sambærileg tala 58%.

 

Á sama hátt hafa fleiri foreldrar sagt frá hafi barn þeirra lent í einelti. 60% aðstandenda nemenda í 8. – 10. bekk hafa haft samband við skólann hafi barn þeirra lent í í einelti. Í fyrra var svarhlutfallið  48%. 60% foreldra í 4. – 7. bekk leita til skólans í ár en voru 55% í fyrra.

 

Dregið hefur úr hvers konar athöfnum sem benda til þess að einelti geti verið í aðsigi eða að einelti sé til staðar. Nemendur voru inntir eftir því hvort þeir hafi orðið fyrir stríðni á óþægilegan eða meiðandi hátt, útilokun, spörkum eða hrindingum, rógburði, að peningar eða annað hafi veri tekið af þeim eða eyðilagt,  þeim ógnað eða að þau hafi verið neydd til að gera eitthvað sem þau vildu ekki, þau hafi orðið fyrir meiðandi athugasemdum um húðlit eða erlendan uppruna – eða athugasemdum eða látbragði með kynferðislegri tilvísun. Í öllum tilvikum hefur dregið úr slíku.

 

Skólarnir fá margvíslegar upplýsingar um aðbúnað og staði í skóla eða í umhverfinu sem nemendur segja að séu til þess fallnir að leggja aðra í einelti. Algengast er að nemendur verði fyrir einelti á göngum skólans en þar næst á skólalóðinni. Athyglisvert er að þar sem salerni eru lokuð fyrir hvern og einn er einelti ekki til staðar en hins vegar segja 6-7% af þeim sem verða fyrir einelti að þau verði fyrir því á salernum skólans. Ef skólar væru hannaðir þannig að salernin væru lokuð mætti því gera ráð fyrir að ekkert barnanna yrði fyrir þessu ofbeldi.

 

Hver þátttökuskóli fær sundurgreindar upplýsingar úr þessari könnun sem hann getur notað til markvissra viðbragða til að ná enn betri árangri í aðgerðum gegn einelti.

 

55 grunnskólar hafa sótt um að hefja þátttöku í Olweusar-verkefninu gegn einelti frá og með næsta hausti. Stefnt er að því að gefa þeim öllum kost á að taka þátt í verkefninu næstu tvö árin.

 

Nánari upplýsingar um niðurstöður könnunar og um Olweusarverkefnið gegn einelti er að finna á vef menntamálaráðuneytisins; menntamalaraduneyti.is og á síðu Olweusarverkefnisins, olweus.is.

 

Menntamálaráðuneytið, 22. janúar 2004

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum