Hoppa yfir valmynd
27. janúar 2004 Matvælaráðuneytið

Skipun eigendanefndar Landsvirkjunar.

Nr. 2/2004

Skipun eigendanefndar Landsvirkjunar.

Sameignarsamningi um Landsvirkjun var breytt árið 1996. Þá var arðgjafar- og arðgreiðslumarkmiðum fyrirtækisins breytt jafnframt því sem ýmis stjórnunarleg atriði voru endurskoðuð í því skyni að líkja betur eftir hlutafélagaforminu. Sú nefnd eigenda Landsvirkjunar sem vann að breytingunum á sameignarsamningnum fór ásamt ráðgjafa sínum, JP Morgan, yfir kosti þess og galla að breyta Landsvirkjun í hlutafélag og minnka eða afnema eigendaábyrgð. Niðurstaðan var sú að gera ekki breytingar á rekstrarforminu en ákveðið var að fyrir 1. janúar 2004 skyldi fara fram endurskoðun á sameignarsamningi um Landsvirkjun, þ.m.t. á því hvort ástæða þætti til að stofna hlutafélag um Landsvirkjun.

Í ljósi ofangreinds hefur það orðið að samkomulagi á milli eigenda Landsvirkjunar, þ.e. ríkisins, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar, að skipa nýja eigendanefnd. Nefndin skal skoða fjárhagsstöðu og fjármögnun Landsvirkjunar, stöðu fyrirtækisins í breyttu umhverfi raforkumála og gera tillögur um breytingar á sameignarsamningi um fyrirtækið, m.a. um arðsemismarkmið með hliðsjón af nýjum raforkulögum. Nefndin skal ekki leggja til að breytingar verði gerðar á rekstrarformi fyrirtækisins að svo stöddu.

Nefndin er þannig skipuð:

  • Benedikt Árnason, skrifstofustjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, formaður,
  • Dan Jens Brynjarsson, sviðsstjóri stjórnsýslusviðs Akureyrarbæjar,
  • Sigurður Snævarr, borgarhagfræðingur,
  • Stefán Jón Friðriksson, sérfræðingur, fjármálaráðuneyti og
  • Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, borgarlögmaður.
  • Ritari nefndarinnar er Jónína S. Lárusdóttir, lögfræðingur í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.

Reykjavík, 27. janúar 2004.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum