Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2004 Matvælaráðuneytið

Brottkast

Sjávarútvegsráðuneytið hefur nú í annað sinn látið IMG Gallup gera könnun á umfangi brottkasts. Könnunin er liður í þeirri áherslu ráðuneytisins að fylgjast með og vinna stöðugt gegn brottkasti en segja má að það átak hafi byrjað þegar fyrri könnunin var framkvæmd í lok ársins 2000. Hafrannsóknastofnunin og Fiskistofa hafa jafnframt lagt ríka áherslu á brottkastmálið og gert sínar rannsóknir á brottkasti markvissari og rannsaka það nú kerfisbundið á hverju ári.

Eins og í síðustu könnun þá voru það fáir sem höfðu orðið varir við brottkast í síðustu veiðiferð. Tæplega 82% sjómanna hafði ekki orðið var við brottkast í síðustu veiðiferð. Í könnuninni sem gerð var í lok ársins 2000 var þessi tala heldur lægri en þá höfðu 80% ekki orðið varir við brottkast í síðustu veiðiferð. Þetta sýnir að afgerandi meirihluti sjómanna telur að ekki sé brottkast á þeirra skipi. 

 

Í könnuninni er bætt við nýrri spurningu sem hefur þann tilgang að leggja mat á verðmæti þess afla sem kastað er fyrir borð. Spurt var; hve stórt hlutfall er brottkast af aflaverðmæti. Lang flestir töldu að um óverulegan hluta væri að ræða eða undir 1% af verðmæti hans þar sem 82,3% aðspurðra sögðu að það væri minna en 1 prósent, en 17,7% sögðu það vera yfir 1%. Út frá þessum tölum má gera ráð fyrir að 98,7-99% af verðmæti aflans komi að landi.

 

Þá er það niðurstaða könnunarinnar að brottkast hefur minnkað á síðustu þremur árum. Sjómenn telja í 43% tilvika að brottkast hafi minnkað á tímabilinu á móti 25% úr fyrri könnuninni. Tæp 17% töldu það hafa aukist og 40% töldu það hafa staðið í stað.

 

Einnig var spurt um hvaða tegundum var kastað í síðustu veiðiferð. Í því samhengi er hvað mikilvægast að brottkast á þorski hefur minnkað verulega þar sem 38,5% nefndu að þorski væri kastað en í síðustu könnun var þessi tala 71,1%. Yfir 40% sögðu í könnuninni nú að öðrum tegundum en okkar helstu bolfisktegundum væri kastað á móti 20% áður. Merkjanleg aukning hins vegar á brottkasti ýsu. Þetta bendir til þess að verið sé að henda verðminni fiski en áður.

 

Ein þeirra aðgerða sem Sjávarútvegsráðuneytið hefur hrint í framkvæmd til þess að sporna við brottkasti er að koma á svo kölluðum Hafrókvóta og því voru sjómenn sérstaklega beðnir um að leggja mat á áhrif hans á brottkast. Um helmingur sjómanna taldi hann hafa minnkað brottkast verulega. Spurt var hvort Hafrókvótinn hafi orðið til þess að auka eða minnka brottkast, eða hvort hann hefði ekki haft nein áhrif.

 

Afstaða sjómanna til kvótakerfisins var athuguð í þessari könnun eins og þeirri síðustu. Niðurstaðan úr þeirri spurningu er sú að fleiri sjómenn eru nú fylgjandi kvótakerfinu. Spurt var; ertu hlynntur eða andvígur aflamarkskerfinu.

 

Niðurstaða

Þegar á heildina er litið þá eru niðurstöður könnunarinnar jákvæðar. Færri sjómenn hafa orðið varir við brottkast. Þeir sem hins vegar verða varir við slíkt telja verðmæti aflans sem fyrir borð fer hafa lækkað á milli kannana. Þetta má meðal annars sjá á því að um helmingi minna er hent af þorski og heildarmagnið hefur einnig minnkað. Jafnframt telur yfir 80% sjómanna að aflinn sem fer fyrir borð á ný sé innan við 1% af verðmæti hans. Þá bendir allt til þess að Hafrókvótinn sé að skila verulegum árangri í að sporna við þeim ósóma sem brottkastið er. Í þessari könnun kemur það einnig fram að sjómönnum sem eru fylgjandi kvótakerfinu fer fjölgandi.

 

Könnun Hafrannsóknastofnunarinnar og Fiskistofu

 

Eins og áður segir þá hafa Hafrannsóknastofnun og Fiskistofa unnið með skipulögðum hætti að rannsókn brottkasts á undanförnum árum og er niðurstaða þeirra að brottkast á þorski hafi minnkað verulega eins og sést á meðfylgjandi mynd. Hlutfall brottkasts í heildarafla þorsks er samkvæmt niðurstöðum fyrir árið 2002 um 1%. Jafnframt má sjá auknignu í ýsu. Niðurstöðurnar eru því á svipaða lund og skoðanakannanirnar gefa til kynna og styrkja þær þannig hvor aðra.

 

Sjávarútvegsráðuneytið

19. febrúar 2004

 

 

 

 

 

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum