Hoppa yfir valmynd
25. febrúar 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Frumvarp til laga um verndun Mývatns og Laxár í S-Þingeyjarsýslu

Mývatn, Ragnar Th Sigurðsson
Mývatn, Ragnar Th Sigurðsson

Umhverfisráðherra mælti fyrir frumvarpi til nýrra laga um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu á Alþingi síðastliðinn mánudag. Eftirfarandi kom fram í máli ráðherra.

Frumvarpið er í meginatriðum samið af nefnd sem skipuð var 25. september 2001 og hafði það verkefni að endurskoða lög nr. 36/1974 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu með hliðsjón af þeim breytingum sem orðið hafa á síðustu árum á stjórnsýslu náttúruverndarmála m.a. með nýjum lögum um náttúruvernd nr. 44/1999. Einnig var nefndinni falið að gera tillögur um framtíðarstarfsemi Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi síðastliðinn vetur en náði ekki fram að ganga. Gerðar hafa verið lítilsháttar breytingar á frumvarpinu síðan þá með hliðsjón af umsögnum sem bárust umhverfisnefnd Alþingis. Einnig hefur verið bætt við frumvarpið ákvæði til bráðabirgða III þar sem heimild Umhverfisstofnunar til að veita leyfi til hækkunar stíflu við Laxárvirkjun er rýmkuð. Gert er ráð fyrir að frumvarp þetta taki gildi 1. maí 2004.

Í frumvarpinu er lagt til að gildissviði laganna verði breytt frá því sem nú er og þau taki í meginatriðum til Laxár, Mývatns og ýmissa nálægra votlendissvæða en núgildandi lög ná til Laxár og Skútustaðahrepps alls. Gert er ráð fyrir að önnur svæði í Skútustaðahreppi sem hafa hátt verndargildi verði friðlýst samkvæmt náttúruverndarlögum og verður þegar hafist handa við þann undirbúning, verði frumvarp þetta að lögum. Skal þeim friðlýsingum vera lokið fyrir 1. janúar 2008, samkvæmt bráðabirgðaákvæði frumvarpsins. Auk þess er í frumvarpinu nýmæli um sérstaka vernd vatnasviðs Mývatns og Laxár.

Samkvæmt 3. gr. frumvarpsins verður óheimilt að valda spjöllum eða raski á lífríki, jarðmyndunum og landslagi á landsvæði sem afmarkast af Laxá, Mývatni og nálægum votlendissvæðum. Mörk þessa svæðis eru dregin á korti í fylgiskjali I með frumvarpinu. Leita skal leyfis Umhverfisstofnunar fyrir hvers konar framkvæmdum á þessu svæði. Gert er ráð fyrir að efnislega sé um sambærilega vernd að ræða og er á svæðinu í dag.

Um vernd vatnasviðs Mývatns og Laxár er síðan fjallað í 4. gr. frumvarpsins og eru mörk þess dregin á korti í fylgiskjali II. Samkvæmt greininni skal forðast að valda spjöllum á vatnasviði Mývatns og Laxár sem raskað gætu vernd vatnsins og árinnar.

Nýmæli er í 6. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um gerð verndaráætlunar fyrir Skútustaðahrepp allan auk Laxár allt að ósum árinnar við Skjálfandaflóa, eða það landssvæði sem fellur undir gildandi lög. Skal þar m.a. fjallað um nauðsynlegar verndaraðgerðir, friðlýsingu náttúruminja, landnýtingu, umferðarrétt almennings og aðgengi ferðamanna að svæðinu. Verndaráætlunin skal gerð í samvinnu við viðkomandi sveitarstjórnir, hagsmunaaðila og umhverfisverndarsamtök á svæðinu og stofnanir sem starfa lögum samkvæmt á sviði náttúruverndar, vatnsverndar og veiðinýtingar. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða I skal gerð verndaráætlunar lokið fyrir 1. janúar 2006. Umhverfisstofnun hefur þegar hafist handa við gerð verndaráætlunar.

Gert er ráð fyrir að starfsemi Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn verði óbreytt en stjórn hennar lögð niður. Í stað hennar verði skipað fagráð sem verði forstöðumanni til ráðgjafar um vísindastarf stofnunarinnar, rannsóknarstefnu og fagleg tengsl við aðrar stofnanir sem stunda rannsóknir á svæðinu, en hafi ekki með daglegan rekstur stofnunarinnar að gera.

Eins og áður segir er í frumvarpinu ákvæði til bráðabirgða III þar sem heimild Umhverfisstofnunar til að leyfa hækkun stíflu við Laxárvirkjun er rýmkuð, að því tilskildu að fyrir liggi samþykki Landeigendafélags Laxár og Mývatns og umhverfismat vegna framkvæmdarinnar hafi farið fram. Ís- og krapastíflur ásamt grunnstingulsvandamálum tengt inntaki virkjunarinnar hafa truflað rekstur hennar. Einnig hefur sandburður í Laxá valdið erfiðleikum í rekstri Laxárvirkjunar og valdið sliti á vatnsvélum. Þá hafa heimamenn haft áhuga á því að draga úr sandburði í Laxá. Vegna þessa hefur Landsvirkjun gert áætlun um að hækka núverandi stíflu efst í Laxárgljúfri í því skyni að leysa framangreind vandamál. Með því myndast inntakslón ofan stíflunnar og sandur og grjót sem Laxá ber með sér fellur til botns í lóninu.

Samkvæmt núgildandi lögum og 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins eru allar breytingar á hæð vatnsborðs Mývatns og Laxár óheimilar nema til verndunar og ræktunar þeirra. Í 1. gr. samnings sem gerður var milli stjórnar Laxárvirkjunar, Landeigendafélags Laxár og Mývatns og ríkisstjórnarinnar frá maí 1973 vegna svonefndrar Laxárdeilu segir að samþykki Landeigendafélags Laxár og Mývatns þurfi fyrir breytingum á virkjunum í Laxá sem leiða til hækkunar á vatnsborði árinnar. Núgildandi lög ganga þannig lengra en fyrrnefnt samkomulag hvað þetta varðar. Bráðabirgðaákvæðinu er því meðal annars ætlað að tryggja að lögin um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu standi ekki í vegi fyrir framkvæmdum sem aðilar máls þ.e. Landsvirkjun og Landeigendafélag Laxár og Mývatns yrðu sammála um að nauðsynleg væru til að leysa þá erfiðleika sem verið hafa í rekstri virkjunarinnar, enda fari slíkar framkvæmdir ekki í bága við náttúruverndarsjónarmið að mati Umhverfisstofnunar.

Annar megintilgangur bráðabirgðaákvæðisins er að opna fyrir þann möguleika að umhverfismat vegna framkvæmdarinnar geti farið fram, en um það hefur ríkt ákveðin réttaróvissa, vegna fyrrnefndra ákvæða núgildandi laga og frumvarpsins, um að allar breytingar á hæð vatnsborðs Mývatns og Laxár séu óheimilar nema til verndunar og ræktunar þeirra. Ef slík framkvæmd er ekki til verndunar og ræktunar er hún beinlínis ólögmæt samkvæmt þessum ákvæðum og því óvíst hvort mat á umhverfisáhrifum hennar geti farið fram. Töluverð umræða hefur farið fram síðustu ár um það hvort og með hvaða hætti unnt sé að leysa fyrrnefnda erfiðleika í rekstri Laxárvirkjunar og eru skoðanir manna skiptar. Fram hefur komið í máli margra heimamanna að þeir telja unnt að leysa þá með öðrum hætti en eingöngu með hækkun á núverandi stíflu virkjunarinnar. Í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar er lagt mat á hvaða áhrif hún hefur á umhverfið og auk þess skoðaðir helstu kostir við fyrirhugaða framkvæmd, í þessu tilviki væntanlega bæði mismunandi stífluhæð og e.t.v. aðrar leiðir sem mögulegar eru til að hefta sandburð í Laxá. Mat á umhverfisáhrifum mun þannig gefa þýðingarmiklar upplýsingar og auðvelda alla ákvarðanatöku um málið, meðal annars fyrir Landeigendafélag Laxár og Mývatns, en ekki síst fyrir leyfisveitendur, sem í þessu tilviki eru Umhverfisstofnun og viðkomandi sveitarfélag.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum