Hoppa yfir valmynd
10. mars 2004 Matvælaráðuneytið

Samstarfsvettvangur um hönnun.

Nr. 4/2004

Stofnað hefur verið til samstarfsvettvangs um hönnun, sem ætlað er að efla íslenska hönnun og koma íslenskum hönnuðum á framfæri.

Samkomulag hefur náðst milli iðnaðarráðuneytisins, hönnuða, Samtaka iðnaðarins, Útflutningsráðs Íslands, Impru - nýsköpunarmiðstöðvar og Aflvaka um að taka upp samstarf um hönnun. Verkefnið verður kallað Samstarfsvettvangur um hönnun en fyrirmynd þess eru sambærileg rekstrarform sem gefist hafa vel. Má þar nefna samstarfsvettvang sjávarútvegs og iðnaðar. Samstarfsvettvangur um hönnun verður starfræktur sem þróunarverkefni í þrjú ár og verður vistaður hjá Impru, enda fellur þessi starfsemi vel að þeirri stuðningsþjónustu sem þar er fyrir. Tilgangur verkefnisins er að á einum stað verði aflað upplýsinga um íslenska hönnun og hönnuði, upplýsingum miðlað milli hönnuða og fyrirtækja og að efla samstarf á markvissan hátt.

Markmið Samstarfsvettvangs um hönnun verður að auka skilning á mikilvægi hönnunar, efla iðnhönnun og koma íslenskum hönnuðum á framfæri hér heima og erlendis. Einnig mun iðnaðarráðuneytið beita sér fyrir því að unnin verði heildstæð úttekt á þýðingu hönnunar fyrir íslenskt atvinnulíf. Á grundvelli þeirrar vinnu verði lagður grunnur að stefnumörkun fyrir stjórnvöld sem gæti síðan orðið grundvöllur að ákvörðun um fyrirkomulag opinbers stuðnings við hönnun til lengri tíma litið.

Reykjavík, 10. mars 2004.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum