Hoppa yfir valmynd
11. mars 2004 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Fyrsta samræmda stúdentsprófið

Fyrsta samræmda stúdentsprófið verður haldið í íslensku þann 3. maí næstkomandi. Einnig verður eingöngu prófað í íslensku í desember á þessu ári.

Fyrsta samræmda stúdentsprófið verður haldið í íslensku þann 3. maí næstkomandi. Einnig verður eingöngu prófað í íslensku í desember á þessu ári. Á árinu 2005 verða auk íslensku haldin samræmd stúdentspróf í stærðfræði og ensku í maí og desember, sbr. reglugerð um samræmd stúdentspróf nr. 196/2003. Frá og með árinu 2005 verða allir sem ljúka stúdentsprófi að hafa tekið a.m.k tvö samræmd stúdentspróf. Íslenskuprófið nú í maí getur verið annað þeirra. Nemendur sem ljúka stúdentprófi í ár hafa hins vegar val um það hvort þeir taka samræmt próf í íslensku eða ekki. Próftakan veitir þeim eigi að síður gagnlegar upplýsingar um námsárangur í íslensku.

Skráning í samræmd stúdentspróf fer fram í þeim skólum er kenna til stúdentsprófs. Skráningu í íslenskuprófið í maí næstkomandi lýkur mánudaginn 15. mars. Þegar hafa á þriðja hundrað nemenda skráð sig til þessa fyrsta prófs, þrátt fyrir að þátttaka í prófinu sé ekki skylda.

Tilgangur samræmdra stúdentsprófa er m.a. að veita nemendum, framhaldsskólum og fræðsluyfirvöldum upplýsingar um námsárangur nemenda og námsstöðu í þeim námsgreinum þar sem haldin eru samræmd stúdentspróf. Jafnframt er tilgangur prófanna að veita viðtökuskólum upplýsingar um námsstöðu einstakra nemenda.

Námsmatsstofnun sér um framkvæmd samræmdra stúdentsprófa fyrir menntamálaráðuneytið, þ.e. samningu prófanna, fyrirlögn og úrvinnslu. Stofnunin mun gefa út heildaryfirlit yfir niðurstöður prófanna. Þar skulu m.a. koma fram meðaltöl einstakra skóla eftir prófum og fjöldi og hlutfall nemenda með hverja einkunn.

Samræmd stúdentspróf eru yfirlitspróf sem miðast við námsmarkmið í kjarna viðkomandi námsbrautar, sbr. aðalnámskrá framhaldsskóla. Þau eru hluti af skilgreindum námslokum til stúdentsprófs. Einkunnir verða gefnar á einkunnakvarðanum 1-10. Lágmarkseinkunnar er ekki krafist til útskriftar.

Menntamálaráðuneytið, 11. mars 2004

Reglugerðin um samræmd stúdentspórf er að finna í heild á vef menntamálaráðuneytisins. Slóðin er www.menntamalaraduneyti.is.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum