Hoppa yfir valmynd
12. mars 2004 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Viðbótarnám til stúdentsprófs fyrir starfsnámsnemendur

Samkvæmt 16. gr. laga um framhaldsskóla skulu nemendur á starfsnámsbrautum eiga kost á viðbótarnámi til stúdentsprófs til undirbúnings námi á háskólastigi.

Til skólameistara framhaldsskóla

Af gefnu tilefni vill ráðuneytið taka fram eftirfarandi:

Samkvæmt 16. gr. laga um framhaldsskóla skulu nemendur á starfsnámsbrautum eiga kost á viðbótarnámi til stúdentsprófs til undirbúnings námi á háskólastigi.

Í samræmi við þetta var viðbótarnámið skilgreint með auglýsingu nr. 54/2002 um breyting á almennum hluta aðalnámskrár framhaldsskóla en hún hefur verið felld inn í nýja útgáfu af almenna hlutanum, sem tók gildi 20. feb. sl., sjá kafla 4.4.2, viðbótarnám til stúdentsprófs.

Eins og fram kemur í lagagreininni var viðbótarnámið skilgreint til þess að veita viðkomandi nemendum undirbúning til náms á háskólastigi og því er hér eingöngu um almennt bóknám að ræða. Miðað var við að nemendinn fengi fyrra nám í almennum bóklegum greinum að fullu metið og auk þess var bóklegt fagnám og starfsþjálfun látin vega þungt. Eftirtalin atriði voru m. a. höfð að leiðarljósi við skilgreininguna:

  • Að heildarnámstími nemenda, þ. e. starfsnám og viðbótarnám, væri ekki það langur að lengd námsins fældi nemendur frá því að bæta við sig námi í bóklegum greinum.
  • Að nemendur öðluðust nokkra dýpkun í þeim greinum sem þeir veldu sér en veldu ekki einn eða tvo áfanga í fleiri greinum.

Það er ljóst að bakgrunnur þeirra nemenda sem hér um ræðir hvað varðar undirbúning til náms á háskólastigi er ekki eins víðtækur og nemenda sem ljúka stúdentsprófi af bóknámsbrautum framhaldsskóla. Það skiptir því verulegu máli að nemendur skipuleggi viðbótarnámið með tilliti til þess náms sem þeir hyggjast stunda á háskólastigi. Nemandi sem skiptir um skoðun og vill fara í annað háskólanám en það sem undirbúningur hans miðaðist við getur þurft að bæta við sig umtalsvert meira námi til þess að fá inngöngu í það nám sem hugur hans stendur til.

Fram hefur komið óvissa um hvernig túlka beri ákvæði námskrárinnar um þetta efni og því vill ráðuneytið taka fram eftirfarandi:

Miðað er við að sá undirbúningur sem nemendur öðlast í almennum bóklegum greinum í starfsnámi sé sem hér greinir:

                         Starfsnám                                                Starfsnám

                            tvær til þrjár                                              fjórar til sjö

                            annir í skóla                                            annir í skóla

 

Íslenska                 2 ein.                                                 4 ein.

Stærðfræði             2 -                                                      4 -

Lífsleikni                 3 -                                                      3 -

Erlend mál              2 -                                                      8 -

Íþróttir                      2 – 3 ein.                                          4 – 7 ein.

Hugsanlegt er að nemendur sem ljúka starfsnámi hafi mun meiri undirbúning í almennum bóklegum greinum en að ofan greinir. Skynsamlegast er fyrir þessa nemendur að bæta við sig námi samkvæmt því sem segir í a – lið kaflans sem vísað er til hér að framan.

b.1. Þriggja til fjögurra ára starfsnám.

Nemandi sem lýkur þriggja til fjögurra ára starfsnámi hefur lokið 4 einingum í stærðfræði en gerð er krafa um að hann ljúki ekki færri en 6 einingum. Velji nemandinn að bæta við sig námi í stærðfræði, 12 einingum, þá er litið svo á að hann hafi einnig fullnægt ákvæðinu um 6 eininga nám í stærðfræði. Að öðrum kosti verður nemandinn að bæta við sig 2 einingum í stærðfræði.

Þá hefur eftirfarandi setning þótt óljós:

... og tungumálum eða náttúrufræðigreinum og stærðfræði eða samfélagsgreinum 12 ein.

Hér eru tilgreindir þrír flokkar greina og þarf nemandinn að velja sér einn flokk og taka alls 12 einingar í þeim flokki. Miða skal við að nám í einni námsgrein innan viðkomandi greinaflokks verði ekki minna en 9 einingar alls. Þegar nemandi hefur lokið 9 einingum þá standa eftir 3 einingar sem hann getur bætt við einhverja þeirra greina sem hann hefur áður tekið innan sama flokks.

b.2. Tveggja til þriggja ára starfsnám.

Hér gildir hliðstæð regla um nám í stærðfræði og tilgreint er hér að framan fyrir þriggja til fjögurra ára starfsnám.

Þá hefur verið spurt um hvernig túlka beri setninguna

... og samfélagsgreinum eða náttúrufræðigreinum eða íþróttagreinum 15 ein.

Hér eru tilgreindir þrír flokkar greina og þarf nemandinn að velja sér einn flokk og taka alls 15 einingar í þeim flokki. Miða skal við að nám í einni grein innan viðkomandi greinaflokks verði ekki minna en 9 einingar alls. Þegar nemandi hefur lokið 9 einingum þá standa eftir 6 einingar sem hann getur bætt við einhverjar þeirra greina sem hann hefur áður tekið innan sama flokks.

Að öðru leyti vísast til aðalnámskrár framhaldsskóla, almenns hluta, sem ráðherra staðfesti í janúar sl. og birtur var í Stjórnartíðindum 20. feb. sl.

( Mars 2004)

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum