Hoppa yfir valmynd
31. mars 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Mengað frárennsli skaðar lifandi sjávarauðlindir

radherrar_i_koreu
radherrar_i_koreu

Á fundi umhverfisráðherra ríkja heims í Jeju í Suður-Kóreu, sem lauk í dag, flutti umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, ávarp þar sem hún fjallaði um mikilvægi hreinlætisaðbúnaðar og hreins drykkjarvatns í aðgerðum til að bæta kjör hinna verst settu í heiminum.

Í málflutningi vék umhverfisráðherra sérstaklega að skaðlegum áhrifum mengaðs frárennslis frá þéttbýlissvæðum á lifandi sjávarauðlindir strandsvæða. Aðgerðir til að koma böndum á mengað frárennsli væru óaðskiljanlegur hluti nauðsynlegra úrræða til að bæta hreinlætisaðbúnað og þar með heilsu fólks víða um heim. Hin hnattræna framkvæmdaáætlun frá árinu 1995 um vernd hafsins gegn mengun frá landi væri dæmi um mikilvægt framlag til sameiginlegra aðgerða ríkja heims til að stuðla að bættum hreinlætisaðbúnaði.

Í samantekt um helstu niðurstöður fundar umhverfisráðherranna er kastljósum beint að aðgerðum til að knýja á um að markmiðum leiðtogafundarins í Jóhannesarborg um sjálfbæra þróun á sviði ferskvatns- og hreinlætismála verði náð, en markmiðin eru að:

- samhæfa og tengja aðgerðir til að varðveita og nýta ferskvatnsauðlindir heims á heildstæðan hátt fyrir lok ársins 2005;

- draga saman um helming fyrir lok ársins 2015 fjölda þess fólks sem ekki hefur aðgang að lágmarks hreinlætisaðbúnaði og hreinu drykkjarvatni;

- draga saman um helming fyrir lok ársins 2015 fjölda þess fólks sem hefur minna en sem nemur einum bandaríkjadal á dag sér til lífsviðurværis eða býr við hungur.

Meðal aðgerða til þess að ná þessum markmiðum sem ráðherrarnir ræddu, voru ráðstafanir til að efla áætlanagerð í einstökum ríkjum, bættir stjórnarhættir, mat og eftirlit, svæðasamvinna, vistkerfisnálgun, hagstjórnaraðgerðir og tækniþróun, þar á meðal aukin tæknisamvinna iðn- og þróunarríkja.

Ráðherrarnir lýstu sérstökum áhuga á nauðsyn fræðslu, kynningar og aukinnar færni og þekkingar til að gera fátækari ríkjum kleift að takast á við brýnustu úrlausnarefni. Jafnframt töldu þeir að bæta þyrfti árangur af framkvæmd skuldbindinga Jóhannesarborgarfundarins til þessa og lýstu áhyggjum yfir áframhaldandi sóun takmarkaðra vatnsauðlinda og stopulli fjárfestingu í bættum aðbúnaði í þróunarríkjunum.

Niðurstöður ráðherrafundar Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna í Jeju verða lagðar fram á fundi nefndar Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í New York 28.-30. apríl n.k.

Fréttatilkynning nr. 9/2004
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum