Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 14/2004. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 16. apríl 2004

í máli nr. 14/2004:

MT Bílar ehf.

gegn

Brunavörnum Árnessýslu

Með bréfi 26. mars 2004, sem barst kærunefnd útboðsmála sama dag, kæra MT Bílar ehf. samþykkt stjórnar Brunavarna Árnessýslu (BÁ) frá mánudeginum 15. mars 2004 svohljóðandi: „Samþykkt er að ganga til samninga við Eldvarnarmiðstöðina um kaup á slökkvibílum fyrir útstöðvar BÁ".

Kærandi krefst þess með vísan til 80. gr. laga nr. 94/2001, um opinber innkaup, að kærunefnd útboðsmála stöðvi þegar í dag alla samningsgerð af hálfu BÁ um kaup á slökkvibifreiðum, en samkvæmt bréfi þeirra, dags. 15. mars 2004, hafa BÁ ákveðið að ganga til samninga við Eldvarnarmiðstöðina um kaup á slökkvibílum fyrir útstöðvar BÁ.

Ennfremur krefst kærandi þess með vísan til 81. gr. laga nr. 94/2001 að kærunefnd útboðsmála leggi fyrir BÁ að bjóða út kaup á slökkvibifreiðum sem ákvörðun hefur verið tekin um að kaupa til BÁ í samræmi við ákvæði laga nr. 94/2001 og annarra reglna.

Til vara krefst kærandi að kærunefnd útboðsmála leggi fyrir kærða að ganga til samninga við kæranda um kaup á slökkvibifreiðum í samræmi við verðupplýsingar kæranda á slökkvibifreiðum.

Ennfremur krefst kærandi að kærunefnd útboðsmála ákveði að kærði greiði kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi, sbr. 3. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001.

Kærða gafst kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri vegna kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar. Með bréfi lögmanns kærða 7. apríl 2004 var upplýst að samningsgerð vegna könnunar kærða á gæðum og verði slökkvibíla hefði ekki átt sér stað. Krafa kæranda um þetta efni væri þarflaus og yrði því ekki tekin til umfjöllunar kærunefndarinnar. Öðrum liðum kærunnar var mótmælt og tilkynnt að athugasemdir kærða yrðu sendar kærunefndinni eigi síðar en 16. apríl 2004.

Eins og málið liggur fyrir telur nefndin rétt að taka afstöðu til krafna kæranda um stöðvun samningsgerðar, en láta úrlausn um kröfur kæranda að öðru leyti bíða endanlegs úrskurðar.

Kærandi hefur í máli þessu krafist stöðvunar samningsgerðar, sbr. heimildir kærunefndar útboðsmála samkvæmt 80. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001. Í 1. mgr. 54. gr. laganna kemur fram að tilboð skuli samþykkja skriflega innan gildistíma þess og er þá kominn á bindandi samningur á grundvelli útboðsgagna og tilboðs bjóðanda. Þó skal gera sérstakan samning um kaup á vöru, þjónustu eða verki á grundvelli útboðsins þegar við á eða annar aðili óskar þess. Samkvæmt upplýsingum frá kærða í bréfi 7. apríl 2004 lítur hann svo á að samningsgerð hafi ekki átt sér stað. Hefur kærunefnd því heimild til að taka afstöðu til kröfunnar um stöðvun samningsgerðar.

Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. reglugerðar um viðmiðunarfjárhæðir vegna opinberra kaupa á Evrópska efnhagssvæðinu o.s.frv. nr. 1012/2003 er viðmiðunarfjárhæð vörukaupa sveitarfélaga, stofnana þeirra og annarra opinberra aðila á þeirra vegum kr. 20.649.757,-. Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að fyrirhuguð innkaup miði við kaup á tveimur slökkvibifreiðum. Ennfremur verður ráðið að fjárhæð innkaupanna séu yfir framangreindri viðmiðunarfjárhæð. Verður því að telja verulegar líkur á því að innkaupin séu útboðsskyld. Með vísan til framangreinds þykja nægileg efni til að verða við kröfu kæranda um að stöðva samningsgerð Brunavarna Árnessýslu í framhaldi af verðkönnun á slökkvibílum.

Ákvörðunarorð:

Samningsgerð Brunavarna Árnessýslu í framhaldi af verðkönnun á slökkvibílum er stöðvuð þar til endanlega hefur verið leyst úr kæru MT Bíla ehf.

Reykjavík, 16. apríl 2004.

Páll Sigurðsson

Stanley Pálsson

Sigfús Jónsson

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 16. apríl 2004.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn