Hoppa yfir valmynd
22. júní 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ný lög um varnir gegn mengun hafs og stranda

Ragnar Th.Sigurðsson
Hafid

Nýlega voru samþykkt á Alþingi lög um varnir gegn mengun hafs og stranda sbr. lög nr. 33/2004, sem öðlast gildi 1. október n.k. að frátöldum ákvæðum 16. og 17. gr. sem fjalla um vátryggingar og 18. gr. sem fjalla um viðbragðsáætlanir vegna bráðamengunar sem öðlast gildi 1. janúar 2006. Lögin ná ekki eingöngu til hafsins eins og eldri lög heldur og til stranda en orðið strönd er skilgreint í lögunum sem svæðið milli hæstu og lægstu sjávarstöðu. Hugtakið mengunarlögsaga Íslands skilgreint sérstaklega í lögunum og gilda lögin einnig um íslensk skip utan mengunarlögsögu Íslands eftir því sem Ísland hefur skuldbundið sig til í alþjóðasamningum.

Lögin koma í stað laga nr. 32/1986 um varnir gegn mengun sjávar og eru helstu nýmæli laganna tengd bráðamengun þ.e.a.s. mengun hafs og stranda sem verður skyndilega og krefst tafarlausra aðgerða. Til þess að takast á við bráðamengun er landinu skipt í viðbragðssvæði og skal svæðisráð starfa á hverju svæði sem sveitastjórnir á viðkomandi svæði kjósa en þar eiga m.a. að vera heilbrigðisfulltrúi, slökkviliðsstjóri og hafnarstjóri auk fulltrúa sem skal tilnefndur af atvinnurekendum á svæðinu. Gerður er greinarmunur á framkvæmd og stjórn á vettvangi innan hafnarsvæða sem er í höndum hafnarstjóra og utan hafnarsvæða sem er á vegum Umhverfisstofnunar. Landhelgisgæslunni er fengin heimild til íhlutunar og gera þær ráðstafanir sem taldar eru nauðsynlegar innan mengunarlögsögu Íslands til að koma í veg fyrir og draga úr hættu sem hafi og ströndum stafar af bráðamengun og felst í því meðal annars heimild til yfirtöku á stjórn skips sé fyrirmælum Landhelgisgæslu ekki fylgt.

Mengunarvaldur er ábyrgur fyrir bráðamengunartjóni þótt tjónið verði ekki rakið til saknæmrar háttsemi hans eða starfsmanna hans, sé mengun af völdum flutnings olíu, eiturefna og hættulegra efna eða tengist hún starfsemi á landi sem talin eru upp í viðauka með lögunum. Tekur þessi ábyrgð til tjóns sem nemur allt að 1 milljón SDR (um 105 milljónir króna) og skulu viðkomandi aðilar taka ábyrgðartryggingu eða leggja fram aðra fullnægjandi tryggingu sem Umhverfisstofnun metur gilda sem nemur áðurnefndri upphæð. Um skaðabótarábyrgð umfram þessi mörk fer eftir almennum reglum skaðabótaréttarins.

Atvinnurekstur á landi sem valdið getur bráðamengun hafs og stranda skal gera áætlun um viðbrögð og skulu þær liggja fyrir áður en starfsleyfi er gefið út.

Í lögunum er ákvæði um strönduð skip, palla og önnur mannvirki og kveðið á um að í slíkum tilvikum, sé um strand að ræða og verði viðkomandi ekki komið á flot, beri eiganda að fjarlægja það sem fyrst og eigi síðar en 6 mánuðum eftir strand. Hafi skip, pallar eða önnur mannvirki af sjó eða lofti sokkið getur Umhverfisstofnun krafist þess að þau verði fjarlægð.

Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða skal umhverfisráðherra í samvinnu við samgönguráðherra, Umhverfisstofnun, hafnarsamband sveitarfélaga og Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga láta vinna áætlun um hreinsun stranda og hafsvæða af skipsflökum og skipum í óreiðu og kostnað sem af því leiðir og skal sú áætlun liggja fyrir eigi síðar en 1. júlí 2005, koma til framkvæmda eigi síðar en 1. janúar 2006 og skal hreinsun lokið fyrir árslok 2008.

Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í lögunum skal umhverfisráðherra skipa starfshóp til að undirbúa gildistöku laganna. Starfshópurinn skal starfa þar til lögin hafa að fullu tekið gildi sbr. það sem áður segir og skulu í honum eiga sæti fulltrúar umhverfisráðuneytis, samgönguráðuneytis, Umhverfisstofnunar, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtaka atvinnulífsins.

Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögunum að öðru leyti en því að Landhelgisgæsla Íslands, undir yfirstjórn dómsmálaráðherra, annast eftirlit á hafsvæðum umhverfis Íslands, jafnt úr lofti sem á sjó og Siglingastofnun Íslands, undir yfirstjórn samgönguráðherra, annast eftirlit með búnaði skipa vegna mengunarvarna sbr. lög um eftirlit með skipum.

Umhverfisstofnun hefur eftirlit með framkvæmd laganna að svo miklu sem ekki er mælt fyrir um annað og getur stofnunin falið tiltekna þætti eftirlitsins Heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna eða faggiltum skoðunaraðilum í umboði stofnunarinnar.

Fréttatilkynning nr. 22/2004
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum