Hoppa yfir valmynd
9. október 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Landsráðstefna Staðardagskrár 21 Hótel Glym, 9. okt. 2004

Ávarp umhverfisráðherra, Sigríðar Önnu Þórðardóttur

Ágæta Staðardagskrárfólk og aðrir gestir,

Þetta er fyrsta landsráðstefnan um Staðardagskrá 21 sem ég hef tækifæri til að ávarpa sem umhverfisráðherra. Það er mér mikil ánægja - ég starfaði um árabil að sveitastjórnarmálum og þekki mikilvægi þess starfs af eigin raun. Fyrir umhverfisráðherra er það svo ómetanlegt að eiga hauka í horni í byggðum landsins í því fólki sem starfar að Staðardagskrá.

Mikilvægi umhverfismála fer stöðugt vaxandi, sem meðal annars má sjá á miklum fjölda allþjóðlegra samninga á því sviði. Má nefna að um 40% af gerðum Evrópusambandsins sem Íslendingar taka upp í gegnum EES-samninginn eru á sviði umhverfisráðuneytisins. Það er mikið álag á stjórnsýslu fámenns ríkis að taka þátt í þessu mikla og margbrotna samstarfi gera það með reisn, eins og við viljum gera. Það á ekki síður við um íslensk sveitarfélög að þau eiga fullt í fangi við að sinna þeim mörgu og mikilvægu verkefnum sem þeim eru falin og standa undir þeim kröfum sem íbúar þeirra gera.

Staðardagskrá 21 hefur vaxið og dafnað frá því að umhverfisráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga hrintu því úr vör fyrir sex árum. Mikill fjöldi fólks hefur komið að verkefninu, en það er ekki síst nokkrum dugmiklum og áhugasömum einstaklingum að þakka að það hefur náð þeirri útbreiðslu og árangri sem raun ber vitni. En það má ekki mikið útaf bregða. Brotthvarf öflugra einstaklinga úr fylkingarbrjósti gæti orðið þungt í skauti fyrir Staðardagskrárstarfið í viðkomandi sveitarfélögum og jafnvel á landsvísu. Við þurfum að vera viðbúin slíku og reyna að fá mann í manns stað. En það er trú mín að ef Staðardagskrá 21 væri ekki til þyrfti að finna upp eitthvað svipað, því sveitarfélög þurfa að mynda sér framtíðarsýn og búa í haginn fyrir komandi kynslóðir. Við þurfum því stöðugt að hlúa að Staðardagskránni og missa aldrei sjónar af grundvallarmarkmiðum hennar. Ráðstefnur á borð við þessa eru vel til þess fallnar. Hér í dag er boðið upp á fjölmörg áhugaverð erindi sem eiga það sameiginlegt að horfa til framtíðar og spyrja hvernig best sé að byggja undir blómlegt atvinnulíf í byggðum landsins. Slíka uppbyggingu þarf að reisa á bjargi sjálfbærrar þróunar en ekki á sandi skammtímasjónarmiða.

Sjálfbær þróun er ekki nein töfraformúla, þar sem ein lausn hentar öllum. Ef sú væri raunin þyrftum við ekki neina Staðardagskrá. Í Staðardagskránni felst að heimamenn á hverjum stað verða að byggja á sínum auðlindum, aðstæðum og hyggjuviti - og á lýðræðislegri umræðu. Staðardagskrá 21 er enginn stóridómur um hvað er rétt og rangt í ýmsum mikilvægum málum sem snerta byggðir landsins. Hún er hins vegar tæki sem fólk getur notað til að móta mismunandi framtíðarsýn, eftir aðstæðum í hverri byggð. Hvaða leiðir sem menn sjá fyrir sér í atvinnuuppbyggingu, þá eru lýðræðisleg umræða og hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar gagnleg leiðarljós fyrir þá sem vilja hyggja að framtíð og byggja upp blómlegt mannlíf í sátt við náttúruna. Það er því vel til fundið að þessi landsráðstefna Staðardagskrár 21 skuli fjalla um atvinnumál og sjálfbæra þróun í byggðum landsins.

Einn er sá þáttur náttúrunnar sem Íslendingum er hugleiknari en mörgum öðrum þjóðum. Veðurfar og árferði eru daglega í fréttum og tali fólks, enda oft æði rysjótt hér á landi og atvinna margra háð veðrinu. Nú fjalla fréttir ekki einungis um hvernig veðurfarið leikur okkur mennina, heldur einnig hvernig mannkynið hefur áhrif á lofthjúpinn. Þær fréttir verða væntanlega mjög í brennidepli í nóvembermánuði, þegar umfangsmikil skýrsla Norðurskautsráðsins um loftslagsbreytingar á Norðurslóðum verður kynnt í Reykjavík. Breytingarnar eru um tvöfalt til þrefalt hraðari á Norðurheimskautssvæðinu en á heimsvísu, svo að afleiðingarnar verða væntanlega einna fyrst merkjanlegar þar. Í þessu sambandi má nefna að nýjustu fréttir um að Rússar hyggist staðfesta Kýótó-bókunina vekja vonir um að hún gangi í gildi á næsta ári. Ríkisstjórnin vinnur eftir sérstakri framkvæmdaáætlun í loftslagsmálum, en það er einnig ástæða til að fagna því að sum sveitarfélög hafa hugað að því hvernig hægt sé að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis í gróðri.

Fleiri tækifæri til samvinnu ríkis og sveitarfélaga um sjálfbæra þróun ættu að gefast á næstu misserum. Þar vil ég nefna fyrst endurskoðun á stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun, sem verður rædd á Umhverfisþingi 2005. Ég mun leita samstarfs við sveitarfélögin um skipulagningu þingsins, auk annarra aðila. Þá liggur fyrir að endurskoða skal samning um stuðning ríkisvaldsins við Staðardagskrá 21 á næsta ári. Ég get ekki sagt fyrirfram hvað sú endurskoðun mun nákvæmlega fela í sér, utan að ég árétta vilja minn til að styðja Staðardagskrárstarfið. Góð þátttaka í þessari ráðstefnu styður mig í þeirri trú að Staðardagskrá 21 lifi góðu lífi og hún verði hér eftir sem hingað til góður liðsauki við að byggja upp gott mannlíf og aukna umhverfisvitund.

Takk fyrir.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum