Hoppa yfir valmynd
19. október 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Fundur Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna á Grand Hóteli 19. október 2004

Ávarp

Sigríðar Önnu Þórðardóttur

Ágætu fundarmenn.

Það er mér mikil ánægja að fá tækifæri til þess að hitta hér flesta af starfandi heilbrigðisfulltrúum landsins en á undanförnum vikum hef ég heimsótt stofnanir ráðuneytisins og lagt áherslu á að hitta það fólk sem umhverfisráðherra og ráðuneytið eru í samstarfi við.

Ég geri mér grein fyrir því að það sem helst brennur á ykkur heilbrigðisfulltrúum er sú umræða sem orðið hefur um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga ekki síst í tengslum við matvælaeftirlitið og frumvarp um samræmingu þess sem lagt var fyrir Alþingi á vegum fyrri ríkisstjórnar á vorþingi 2003. Sama er að segja um þá starfsmenn Umhverfisstofnunar sem vinna að matvælamálum og matvælarannsóknum.

Það hefur ekki farið fram hjá mér að ýmsar vangaveltur eru uppi um að þegar hafi verið ákveðið að matvælamálum verði komið fyrir á einum stað. Slíkar vangaveltur valda eðlilega óróa meðal starfsfólksins ekki síst þegar á það er litið að þessi mál hafa verið til töluverðrar umræðu að undanförnu. Til þess að fyrirbyggja misskilning vil ég taka fram að engar ákvarðanir hafa ennþá verið teknar í þessa veru enda þarf að vanda vinnu við undirbúning og framkvæmd slíkra breytinga. Þær verða einungis gerðar í samstarfi við sveitarfélögin og hlutaðeigandi ráðuneyti sem allt tekur sinn tíma.

Ég tel þó eðlilegast að þessi mál heyri undir eitt ráðuneyti, eina stofnun á vegum ríkisvaldsins og ein lög. Það kann hinsvegar að kalla á breytta verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Í þessu efni ber þó að hafa í huga að heilbrigðiseftirlit, þar með talið matvælaeftirlit, hefur verið byggt ötullega upp af hálfu sveitarfélaganna á síðustu tveimur áratugum og er nú vel sinnt í landinu öllu með fyllilega sambærilegum hætti og gerist í nágrannalöndunum. Menn spyrja því eðlilega hvort nauðsynlegt sé að breyta því kerfi?

Breytingar á því kalla á viðræður milli ríkis og sveitarfélaga um breytta verkaskiptingu og ég held að þeir sem til þekkja séu almennt þeirrar skoðunar að það þjóni litlum tilgangi að fara út í breytingar með það eitt að leiðarljósi að færa matvælaeftirlitið yfir til ríkisins án þess að litið sé til heildarinnar þ.e.a.s. heilbrigðiseftirlits og mengunarvarnaeftirlits. Hvort slík breyting sé óhjákvæmileg til að ná þeim markmiðum sem við teljum nauðsynleg, læt ég ósagt hér, en það er augljóslega mál sem þarf að skoða nánar.

Hvað sem þessum hugleiðingum líður er ljóst að taka verður á matvælamálum með samræmdum hætti í framtíðinni. Kröfur í nýrri löggjöf Evrópusambandsins um matvæli og ábyrgð ríkisvaldsins gagnvart Eftirlitsstofnun EFTA um vandaða framkvæmd kalla á breytingar sem gera hana einfaldari, skýrari og samfelldari.

Umhverfisráðuneytið ber ábyrgð á stórum þætti atvinnumála hvað matvælamálin áhrærir og ég hlýt að horfa til þeirra þátta sem áður eru nefndir. Málið verður að skoðað í víðu samhengi.

Sú löggjöf sem umhverfisráðuneyti og Umhverfisstofnun ásamt heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna ber að annast framkvæmd á er að verulegu leyti komin frá Evrópusambandinu í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Á starfssviði þessara aðila eru um 70% laga og reglugerða komin frá Evrópusambandinu að því best verður séð. Stærstu málin sem nú eru á ferðinni lúta að heildarlöggjöf um matvæli, ný löggjöf um efni og efnavörur og lög um vatnsstjórnun, allt ný ákvæði sem leiða þarf í lög hér á landi í fyllingu tímans. Ráðuneytið og Umhverfisstofnun fylgjast vel með framvindu þessara mála og taka þátt í þessu starfi aðallega á vegum sérfræðinganefnda ESB og vinnu- og undirnefnda EFTA. Eitt stærsta málið sem við stöndum frammi fyrir sem stendur er lögleiðing tilskipunar Evrópusambandsins um vatn og vatnabúskap (Water Framework Directive) sem öðlaðist gildi hjá Evrópusambandinu árið 2000. Það er sameiginleg afstaða EFTA ríkjanna sem eiga aðild að EES-samningnum, Íslands, Lichtenstein og Noregs, að hluti tilskipunarinnar falli ekki undir EES-samninginn og þess vegna hefur verið krafist bæði almennrar og tæknilegrar aðlögunar að tilskipuninni. Almenn aðlögun byggist á því að sá hluti tilskipunarinnar sem fellur að náttúruvernd, dýravernd, auðlindastjórnun og gjaldtöku sé ekki hluti af EES-samningnum. Sérstaka aðlögunin, sem eingöngu er fyrir Ísland en studd af hinum EFTA löndunum í ESB, tekur mið af því að aðeins skuli vöktuð svæði sem sérstaklega eru tilgreind neðan 200 m hæðarlínu þar sem byggð er þétt og rekin er viðkvæm atvinnustarfsemi og er um að ræða svæðið frá Reykjavík austur fyrir Vestmannaeyjar, Austfirðina og Eyjafjörðinn og nágrenni hans. Með þessu ætti að vera hægt að vakta svæði þar sem um 90% landsmanna búa og um 90% atvinnustarfsemi er rekin sem getur haft áhrif á vatnabúskap. Vatnatilskipunin tekur ekki aðeins til landsins heldur og strandsvæða (coastal zones) sem er svæðið innan 1 sjómílu út frá lægstu sjávarstöðu. Þetta kann að valda erfiðleikum sérstaklega vegna þess að yfirráðasvæði sveitarfélaganna til hafsins nær eingöngu til netlaga sem eru 115 metrar frá landi en ein sjómíla er eins og þið vitið 1853 metrar. Hér er um að ræða mál sem þarf að skoða nánar í samvinnu við sveitarfélögin.

Nýlega hefur nefnd umhverfisráðuneytisins skilað tillögum til nýrra laga um efni og efnavörur sem væntanlega verður lagt fram á næstunni og varðar starfsemi Umhverfisstofnunar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna. Við höfum reynt eftir mætti að laga lög á þessu sviði að Evrópulöggjöfinni enda er sú löggjöf til fyrirmyndar. Þótt heildarlöggjafar Evrópusambandsins sé ekki að vænta alveg á næstunni þykir ekki ástæða til að bíða sérstaklega eftir henni því gildandi lög, þ.e.a.s. um eiturefni og hættuleg efni, eru að grunni til gömul eða frá árinu 1968 þótt þau hafi verið endurskoðuð 1988.

Eitt stórmál vil ég nefna sem enn fremur tengist Evrópusamstarfinu en það er ný tilskipun um umhverfisábyrgð (environmental liability) sem hefur náð fram að ganga á Evrópuþinginu. Málið er komið til EFTA og er til athugunar í ráðuneytinu þar sem þessa stundina er fyrst og fremst verið að líta á gildissviðið og hvort tilskipunin falli að öllu leyti undir EES-samninginn.

Í tengslum við önnur mál sem þið sýslið með vil ég nefna að ætlunin er að framlengja gildistíma laga um stuðning sveitarfélaga í fráveituframkvæmdum en þau lög renna út á næsta ári. Enn fremur hef ég hug á að beita mér fyrir endurskoðun dýraverndarlaga en dýraverndarmál fluttust undir Umhverfisstofnun þegar hún tók til starfa 1. janúar 2003. Við þá endurskoðun kemur til athugunar hvort ekki sé rétt að heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna komi að eftirlits- og leyfismálum innan málaflokksins.

Nú er unnið að því að semja verkefnaskrá í ráðuneytinu um þau mál sem ég hyggst leggja áherslu á og verður hún kynnt fljótlega.

Ágætu fundargestir.

Ég vænti þess að við eigum gott samstarf um þau mikilvægu mál sem okkur er í sameiningu falið að sinna.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum