Hoppa yfir valmynd
20. október 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Vígsla snjóflóðavarnargarða á Ísafirði 20. október 2004

Ávarp

Sigríðar Önnu Þórðardóttur, umhverfisráðherra

 

Ágætu Ísfirðingar og aðrir gestir.

Það er mér mikil ánægja að vera með ykkur hér í dag á hátíðarstund þegar við fögnum verklokum í þessum miklu framkvæmdum hér í Seljalandshlíð. Hér hafa verktakar og hönnuðir unnið hörðum höndum síðastliðin ár að þessu verki og lagt sig fram um það að ljúka því vel, þannig að það skili þeim árangri sem því er ætlað.

Mér sýnist verkið hafa tekist vel, þó ásýnd garðs og keilna eigi vafalaust eftir að falla enn betur að umhverfinu hér þegar gróður hefur náð að vaxa. Vil ég óska verktökum og hönnuðum til hamingju með vel unnið verk.

Þær miklu viðhorfsbreytingar sem urðu hjá þjóðinni við hin hörmulegu snjóflóð sem dundu yfir hér á norðanverðum Vestfjörðum fyrir tæpum tíu árum, urðu til þess að stjórnvöld ákváðu að leggja sitt að mörkum til aðstoðar þeim sveitarfélögum sem kynnu að búa við snjóflóðahættu. Það var þá og er enn ósk okkar allra að við þurfum aldrei aftur að standa frammi fyrir eins hörmulegum slysum af völdum snjóflóða hér á landi. Því var ákveðið að ríkisvaldið skyldi veita sveitarfélögunum viðunandi aðstoð bæði tæknilega og fjárhagslega til þess að ákveða með hvaða hætti þau gætu og vildu sem best tryggja öryggi íbúa sveitarfélaganna gagnvart ofanflóðum. Var ákveðið að setja meira fé til eftirlits og vöktunar til að afla þekkingar á virkum snjóflóðavörnum. Það kom í hlut umhverfisráðuneytisins að halda utan um þetta verkefni fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og hefur ráðuneytið átt mjög gott samstarf við öll þau sveitarfélög sem talin eru búa við einhverja hættu vegna ofanflóða. Vil ég hér þakka stjórnendum Ísafjarðarkaupstaðar fyrir gott samstarf við þessa miklu framkvæmd.

Óhjákvæmilega eru skoðanir fólks á framkvæmdum af þessari stærðargráðu skiptar og það er því mjög mikilvægt að reyna útfæra mannvirkin og frágang þeirra þannig að fólk geti notið þeirra og haft af þeim gagn og ánægju til þess að auka líkur á því að þau séu tekin í sátt.

Við hönnun og frágang þessara mannvirkja hefur þetta verið haft að leiðarljósi, umhverfis þau hafa verið lagðir göngustígar og unnið er eftir metnaðarfullri uppgræðslu- og gróðursetningaráætlun.

En í þessu samhengi er ekki síður mikilvægt að framkvæmdin við gerð varnarvirkjanna, uppgræðsla og gróðursetning auk verkeftirlits hefur verið í höndum heimamanna, aðila héðan frá Ísafirði. Þeir hafa staðið sig með sóma og þannig ennfrekar aukið líkur á því að sátt sé um þessa framkvæmd.

Þessi framkvæmd hér í Seljalandshlíð er liður í heildaraðgerðum sem ríkisstjórn og sveitarfélögin ákváðu á sínum tíma að ráðast í til að taka á þeim vanda sem þá var við að eiga. Nú á þessum tímamótum í dag er viðeigandi að nota tækifærið og velta því fyrir sér hvað hafi áunnist. Hættumati þéttbýlisstaða sem búa við ofanflóðahættu er nánast lokið og er það eitt og sér merkur áfangi. Framkvæmdir við varnarvirki víða um land hafa gengið í öllum meginatriðum samkvæmt áætlunum og má þar nefna sem dæmi Flateyri, Siglufjörð, Neskaupstað og Seyðisfjörð, flutning byggðar í Súðavík og margvíslegar aðrar aðgerðir. Jafnframt þessu hafa rannsóknir og eftirlit með ofanflóðahættu verið stórlega eflt.

Það má því með sanni segja að staða þess fólks sem bjó við ofanflóðahættu 1996 er í heild allt önnur í dag m.t.t. öryggis og er það vel.

Á næstu árum er fyrirhugað að halda áfram uppbyggingu varna gegn ofanflóðum hér handan árinnar í Holtahverfi. Þegar á næsta ári er ráðgert að koma fyrir s.k. stoðvirkjum í Kubbanum og í framhaldi af því að reisa þvergarð undir hlíðum hans.

Ég vil að lokum þakka öllum sem hér hafa lagt hönd á plóg við undirbúning og framkvæmd og óska Ísfirðingum hjartanlega til hamingju með þetta mikla mannvirki. Ég vona að mannvirkið nýtist ykkur til útivistar og ánægju ekki síður en til þess að verjast snjóflóðum.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum