Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 39/2004. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 22. október 2004

í máli nr. 39/2004:

Eldafl ehf.

gegn

Ríkiskaupum

Með bréfi dagsettu 8. október 2004, sem barst kærunefnd útboðsmála 10. október 2004, kærir Eldafl ehf., útboð nr. 13628, auðkennt sem „Flugstöð á Bakkaflugvelli." Nánar tiltekið er kærð sú ákvörðun að ætla að ganga til samninga við Steina og Olla ehf.

Kærandi gerir eftirfarandi kröfur í málinu:

  1. Að samningsgerð verði stöðvuð um stundarsakir.
  2. Að ákvörðun kærða verði felld úr gildi og breytt.
  3. Að kærunefnd útboðsmála láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu.

Kærði krefst þess að hafnað verði kröfum kæranda.

I.

Í júlí 2004 óskaði Ríkiskaup, fyrir hönd Flugmálastjórnar, eftir tilboðum í að hanna og reisa fullbúna flugstöð á Bakkaflugvelli við Landeyjasand. Kærandi var einn af fimm bjóðendum. Tilboð voru opnuð 11. ágúst 2004 og reyndist tilboð kæranda þriðja lægsta tilboðið, alls að fjárhæð kr. 49.784.837,-. Tilboð SG Húsa hf. var lægst, að fjárhæð kr. 35.989.663,- og tilboð Steina og Olla var að fjárhæð kr. 44.473.550,-. Önnur tilboð voru hærri.

Samkvæmt gögnum málsins óskaði kærði eftir því við bjóðendur að tilboðin giltu áfram til 22. október 2004, með bréfi, dags. 11. október 2004.

II.

Kærandi byggir á því að hann hafi átt lægsta gilda tilboð. Útfærsla SG Húsa hf. á byggingunni muni hvorki hafa uppfyllt forsendur verkkaupa um að hægt væri að taka bygginguna niður á auðveldan hátt og flytja á annan stað, sbr. lið 1.1 útboðslýsingar, né það skilyrði að auðvelt væri að stækka biðsal út frá vesturgafli salarins, sbr. lið 1.5.1.2 útboðslýsingar. Þá hafi engin gögn fylgt tilboði Steina og Olla ehf. Þrátt fyrir það ætli verkkaupi að semja við þann aðila um verkið.

Þrátt fyrir að Steini og Olli ehf. hafi ekki skilað gildu tilboði, virðist sem félagið njóti sérstakrar velvildar vekkaupa en það hafi áður unnið verk fyrir hann. Kærandi telji að ekki eigi að koma til greina að taka tilboði félagsins, þar sem engin gögn hafi fylgt með tilboði þeirra. Að auki sé óvíst hvort bygging þeirra uppfylli almennar forsendur skv. verklýsingu.

III.

Kærði hafnar kröfum kæranda þar sem ekki sé grundvöllur til að taka þær til greina með vísan til staðreynda málsins og gildandi reglna um opinber innkaup. Kærði hafnar öllum málsástæðum og rökum kæranda.

Þá telur kærði að kæran sé óskýr og kæruatriði óljós og bendir á 2. mgr. 78 gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup en þar standi: „Í kæru skulu koma fram upplýsingar um kæranda, þann aðila sem kæra beinist að og ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem er kærð. Í kæru skulu koma fram kröfur kæranda ásamt stuttri lýsingu málsatvika og málsástæðna og rökstuðningur. Kröfugerð kæranda skal lúta að úrræðum nefndarinnar skv. 79. og 80. gr." Samkvæmt þessu uppfyllir kæran ekki ofangreind skilyrði og ber því að vísa henni frá.

Hvað varði fullyrðingar kæranda um að tilboð S.G. Húsa hf. uppfylli ekki skilmála þá sé þess að geta að kaupandi hafi farið yfir þessi atriði og uppfylli tilboðið þessar kröfur. Hið boðna hús sé einingahús sem auðveldlega megi taka niður og flytja og einfalt sé að stækka biðsal með viðbótareiningum.

Varðandi tilboð Steina og Olla ehf. þá hafi bjóðandi skilað heildartilboðsupphæð í samræmi við 3. mgr. 44. gr. laga um opinber innkaup og einingarverð og önnur gögn hafi verið sannanlega sett í póst degi áður.

Við yfirferð tilboða hafi komið í ljós að lægsta tilboð frá S.G. húsum hf. hafi ekki uppfyllt skilmála útboðsins varðandi lágmarksstærð hússins og verði þar af leiðandi vísað frá.

Varðandi önnur tilboð þá sé þess að geta að ekki hafi verið farið nákvæmlega yfir þau með hliðsjón af því hvort um gild tilboð sé að ræða. Kostnaðaráætlun kaupanda sem lesin hafi verið upp á opnunarfundi tilboða geri ráð fyrir heildarbyggingarkostnaði að upphæð kr. 33.642.000,- og næsta tilboð í krónum sé 33% hærra en kostnaðaráætlun gerir ráð fyrir. Kaupandi hafi yfirfarið kostnaðaráætlun sína og ekki sé um neinar breytingar að ræða. Þar sem fjárheimildir kaupanda miðist við kostnaðaráætlun sé ráðgert að hafna öllum fram komnum tilboðum sem of háum að undanskyldu lægsta tilboði sem ekki uppfyllir kröfur útboðsins og bjóða út að nýju. Vísað er til 13. gr. laga nr. 65/1993 laga um framkvæmd útboða og þeirrar grundvallarreglu framkvæmdar opinbera innkaupa að kaupanda beri ekki að taka tilboðum sem séu óhagkvæm fyrir kaupanda.

IV.

Kærandi krefst í máli þessu að samningsgerð verði stöðvuð. Kærunefnd útboðsmála telur rétt að taka afstöðu til kröfunnar áður en leyst verður endanlega úr efnisatriðum málsins. Skilyrði stöðvunar útboðs eru að kærunefndin teljir verulegar líkur á því, að brotið hafi verið gegn lögum um opinber innkaup nr. 94/2001 eða reglum settum samkvæmt þeim, sbr. 1. mgr. 80. gr. laganna.

Af öllum gögnum gaumgæfðum þykir kærandi ekki hafa sýnt fram á að skilyrðum ákvæðisins sé fullnægt. Þá hefur kærði lýst því yfir að til standi að hafna öllum framkomnum tilboðum. Með vísan til þessa er það niðurstaða kærunefndar útboðsmála að hafna kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar.

Ákvörðunarorð:

Kröfu Eldafls ehf. um stöðvun samningsgerðar vegna útboðs Ríkiskaupa nr. 46958 auðkennt sem „Flugstöð á Bakkaflugvelli", er hafnað.

Reykjavík, 22. október 2004.

Páll Sigurðsson

Inga Hersteinsdóttir

Sigfús Jónsson

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 22. október 2004.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn