Hoppa yfir valmynd
5. nóvember 2004 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Rætur, ráðstefna um norrænan menningararf - 18.-19.11.2004

Fjöldi íslenskra og erlendra listamanna kemur saman til að fjalla um norræna menningu í alþjóðlegu og nútímalegu samhengi.

Fjöldi íslenskra og erlendra listamanna kemur saman dagana 18.-19. nóvember nk. á Nordica hóteli í Reykjavík til að fjalla um norræna menningu í alþjóðlegu og nútímalegu samhengi.

Í tilefni þess að Ísland hefur gegnt formennsku í Norrænu ráðherranefndinni þetta árið gengst menntamálaráðuneytið fyrir ráðstefnunni Rótum, stefnumóti við norræna menningu. Leitast verður við að spegla norræna menningu í alþjóðlegu samhengi og er fyrirlestrum, umræðum og flutningi listamanna á verkum þeirra fléttað saman í samfellda tveggja daga dagskrá.

Tilgangur ráðstefnunnar er að ræða þýðingu hins norræna menningararfs fyrir alþjóðasamfélagið og þátt hans í að efla lista- og menningarlíf líðandi stundar. Í þeim efnum er sérstaklega horft til nýrrar kynslóðar listamanna á Norðurlöndum og sömuleiðis til þeirra listamanna sem eiga rætur sínar að rekja til annarra landa og menningarheima.

Á ráðstefnunni er velt upp spurningum eins og:

Er norræn menning til í dag?

Á norræn menning erindi í menningu samtímans?

Hvað er það sem gerir norræna menningu frábrugðna öðrum menningarstraumum?

Er norræn menning kannski ekkert frábrugðin annarri menningu?

Eiga „minimalismi", rímur og popptónlist eitthvað sameiginlegt?

Sérstaklega er vonast eftir þátttöku og nærveru listamanna úr hinum ólíku listgreinum, starfsmanna lista- og menningarstofnana, stjórnmálamanna, fulltrúa fjölmiðla og síðast en ekki síst áhugasömum einstaklingum um vöxt og viðgang norrænnar menningar.

Á meðal þeirra sem taka þátt í Rótum eru fjölmargir ungir listamenn frá Norðurlöndum sem starfa á alþjóðlegum vettvangi, óháðir átthögum eða landfræðilegum afmörkunum. Þar má m.a. nefna Íslendingana Einar Má Guðmundsson, Hilmar Örn Hilmarsson, Einar Örn Benediktsson, Dag Kára Pétursson, Ólaf Elíasson, Hilmar Sigurðsson, Valdimar Hafstein og Arnþór Birgisson. Á meðal erlendra þátttakenda eru Eyvör Pálsdóttir frá Færeyjum, Mikael Egelund Lee frá Danmörku, Sturlu Gunnarsson frá Kanada, Birgitte Skov og Bo Erhardt frá Danmörku, Thomas McGovern frá Bandaríkjunum, Svante Beckman og Pelle Lidel frá Svíþjóð og Petri Sirviö frá Finnlandi. Auk þátttöku margra framangreindra í fyrirlestrahaldi og umræðum munu listamenn meðal annars kynna verkefni sín í kvikmyndagerð og margmiðlun, ritstörfum, tónlist o.fl.

Nánari upplýsingar um Rætur fást á vefsetrinu www.roots.is

Nánari upplýsingar veitir Eyþór Arnalds, forsvarsmaður ráðstefnunnar, s. 8205000


Dagskrá ráðstefnu (doc-76KB)

Upplýsingar um listamenn (doc-76KB)

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum