Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ársfundur Náttúrufræðistofnunar Íslands 12. nóvember 2004

Ávarp Sigríðar Önnu Þórðardóttur, umhverfisráðherra.

Það er ánægjulegt að ávarpa ársfund Náttúrufræðistofnunar Íslands í tilefni ársfundar hennar og vil ég hér með leyfa mér að þakka móttökurnar þegar ég heimsótti stofnunina á fyrsta starfsdegi mínum sem umhverfisráðherra í síðasta mánuði. Stofnunin hefur stækkað jafnt og þétt á síðustu árum og tekið að sér sífellt fjölbreyttari verkefni sem tengjast ýmsum verklegum framkvæmdum í landinu. Rannsóknir á náttúrunni eru undirstaða þess að unnt sé að taka skynsamlegar ákvarðanir, hvort heldur eru um náttúruvernd eða landnýtingu.

Þið þekkið það öll að fjárhagsstaða stofnunarinnar er um þessar mundir slæm en töluverður rekstrarhalli hefur verið á starfseminni tvö síðustu árin. Þannig hefur reynst nauðsynlegt að segja upp reyndu starfsfólki sem er slæmur kostur einkum í ljósi þess að kostnaðarsamt er að þjálfa fólk í vinnubrögðum og erfitt er að bæta þá þekkingu sem hverfur með reyndu starfsfólki. Því er mikilvægt að vinna að bættri fjárhagsstöðu stofnunarinnar og gera henni kleift að halda því hæfa og reynda starfsfólki sem hún hefur yfir að ráða í dag.

Í þessum tilgangi óskaði ráðuneytið, í samráði við forstjóra stofnunarinnar, eftir því við Ríkisendurskoðun að gerði úttekt á fjárhagsvanda stofnunarinnar. Þessari athugun er nú að ljúka og mun ráðuneytið skoða niðurstöður og tillögur Ríkisendurskoðunar gaumgæfilega með það að markmiði að bæta fjárhagsstöðu stofnunarinnar að hún geti sem best sinnt hlutverki sínu. Við fjárlagagerð fyrir komandi ár verður lögð áhersla á að koma til móts við vanda stofnunarinnar en jafnframt verður að fara ítarlega yfir verkefni hennar og vega og meta hver hinna lögbundnu verkefna er brýnast að leysa og vinna að á næstu misserum og jafnframt forgangsraða þeim.

Á undanförnum árum hefur Náttúrufræðistofnun Íslands aflað sér mikilla sértekna með útseldri vinnu. Tengist þetta m.a. virkjunarframkvæmdum og gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Tekjur vegna rammaáætlunar hafa engar verið á þessu ári enda fyrsta áfanga hennar lokið. Nýlega hefur verið skipuð umsjónarnefnd sem í eiga sæti fulltrúar iðnaðarráðuneytis og umhverfisráðuneytis undir forystu Sveinbjarnar Björnssonar, fyrrverandi Háskólarektors. Henni er ætlað að halda verkefninu áfram og undirbúa framhaldið. Ég geri mér vonir um að haldið verði áfram á næstu árum með þær rannsóknir sem eftir standa vegna einstakra hugmynda verkefnisstjórnar rammaáætlunar sem starfaði á árunum 1999 til 2004 og jafnframt rannsóknir sem tengjast öðrum svæðum sem verkefnisstjórnin tók ekki afstöðu til í tillögum sínum. Ég vænti þess að Náttúrufræðistofnun muni gegna þar veigamiklu hlutverki.

Það er augljóst að ein helsta stofnun landsins sem sinnir grunnrannsóknum á sviði náttúruvísinda lögum samkvæmt á í erfiðleikum með að sinna verkefnum með því að treysta á verulegar sértekjur, enda eru þær alltaf óvissar. Ég tel að það þurfi að skapa grundvöll til þess að snúa þessari þróun við til að föst fjárframlög standi undir stærri hluta starfsemi stofnunarinnar heldur en verið hefur.

Nýlega flutti setur stofnunarinnar á Akureyri í nýtt og glæsilegt húsnæði sem mun örugglega styrkja starfsemi hennar á Akureyri og það er von mín að á næstu misserum rætist úr húsnæðismálum Reykjavíkursetursins. Einnig er brýnt að leysa málefni Náttúrugripasafnsins í samvinnu við menntamálaráðuneytið.

Við lestur ársskýrslna stofnunarinnar undanfarin ár er ljóst að starfsemi hennar er umfangsmikil og fjölbreytt. Á síðustu 10 árum hefur orðið gjörbreyting á skráningu náttúrfars, úrvinnslu gagna og framsetningu eins og væntanlega verður kynnt hér á eftir. Hér er bæði um að ræða starfsemi sem tengist lögbundnum verkefnum stofnunarinnar og eins sérverkefnum en hafa verður í huga að vinnsla sérverkefna eins og fyrir rammaáætlun um virkjunarkosti skilar stofnuninni einnig ómetanlegum upplýsingum um þessa þætti.

Góðir og aðgengilegir gagnagrunnar um náttúru landsins eru grundvöllur þess að hægt verði í framtíðinni að taka ákvarðanir um verndun líffræðilegrar fjölbreytni, ný verndarsvæði og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Því er nauðsynlegt að styrkja starfsemi stofnunarinnar á sviði grunnrannsókna, úrvinnslu og vöktunar. Öflun þessara upplýsinga er jafnframt verkefni sem aðrar rannsóknarstofnanir og náttúrustofur sveitarfélaganna þurfa að sinna og er því mikilvægt að þessir aðilar starfi saman að því að móta heildarmynd af ástandi og þróun náttúrunnar. Í þessu skyni hefur verið komið á samráðsvettvangi Náttúrufræðistofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar og náttúrustofa sveitarfélaganna og er mikilvægt að þessir aðilar stilli saman strengi auk annarra stofnana á þessu sviði sem ekki heyra undir umhverfisráðuneytið. Ég tel nauðsynlegt að farið verði skipulega yfir hvernig fjármunir verði best nýttir til þess að ná árangri og koma í veg fyrir hugsanlega skörun og tvíverknað.

Rannsóknir á helstu nytjastofnum verður að efla til þess að hægt verði að setja upp stofnlíkön og meta stofnstærðir og veiðiþol þeirra sem hlýtur að vera undirstaða þess að hægt sé að nýta þá með sjálfbærum hætti og grípa til nauðsynlegra aðgerða gerist þess þörf. Strax eftir helgi á ég von á tillögum frá rjúpnanefnd umhverfisráðuneytisins um stjórnunaraðgerðir í tengslum við veiðar á fuglum en nefndinni var sérstaklega falið að fjalla um þá þætti til þess að betur yrði hægt að stjórna veiðunum með sjálfbærar nytjar að leiðarljósi. Síðasti fundur nefndarinnar í þessu skyni var haldinn í morgun og veit ég ekki betur en að full eindrægni sé í nefndinni um tillögurnar sem væntanlega verða lagðar fram fljótlega í formi frumvarps til laga. Gert er ráð fyrir því að þær tillögur gætu einnig orðið fyrirmynd að stjórnum veiða annarra tegunda.

Á vísindaráðstefnu ACIA um loftslagsbreytingar á norðurslóðum sem nýlega er lokið kom ítrekað fram að mikilvægt væri á næstunni að fylgjast með þeim breytingum sem kunna að verða á gróðurfari og dýra- og fuglalífi á svæðinu. Til þess að geta metið slíkar breytingar er mikilvægt að hafa skýra mynd af ástandinu. Niðurstöður vísindamanna virðast nokkuð samhljóma og mikilvægt er að skoða þær vandlega á næstunni og meta hvernig best sé að bregðast við þeim vanda sem kann að skapast. Það kemur í hlut ráðherrafundar hér í Reykjavík 24. þ.m. að leggja mat á tillögur sérfræðinganna ákvarða viðbrögð og huga að næstu skrefum.

Ágætu fundarmenn. Ég óska Náttúrufræðistofnun Íslands velfarnaðar á komandi árum og mun leggja mig fram um að stofnunin geti til framtíðar sinnt þeim mikilvægu verkefnum sem henni eru falin.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum