Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ákvörðun vegna efnistöku á Ingólfsfjalli

Ákvörðun vegna efnistöku á Ingólfsfjalli.

Umhverfisráðuneytið hefur nú til meðferðar kæru eigenda jarðarinnar Kjarrs í Ölfusi og Fossvéla ehf. vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 10. september 2004, þess efnis að efnistaka uppi á Ingólfsfjalli falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum og skylt sé að tilkynna hana til Skipulagsstofnunar. Í kæru er þess krafist annars vegar að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Ráðuneytið áformar að úrskurða um þetta atriði eigi síðar en 29. nóvember n.k. Hins vegar er þess krafist í kæru að ráðuneytið fresti réttaráhrifum ákvörðunarinnar á meðan kæran er til meðferðar hjá ráðuneytinu þar sem stöðvun framkvæmdarinnar hafi í för með sér tjón fyrir framkvæmdaraðila.

Ráðherra hefur með bréfi til kæranda dags. 15. nóvember sl. fjallað um kröfu hans um frestun réttaráhrifa. Þar kemur fram það álit ráðuneytisins að ákvörðun Skipulagsstofnunar um tilkynningarskyldu framkvæmdarinnar til Skipulagsstofnunar standi og ber sveitarstjórn að virða þá niðurstöðu þar til úrskurður ráðuneytisins fellur þann 29. nóvember n.k.  Hins vegar sé það ekki í verkahring Skipulagsstofnunar heldur sveitarstjórnar að stöðva framkvæmdir sem fara í bága við ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar hafi að mati ráðuneytisins ekki falist ákvörðun um stöðvun á efnistökunni og var það því niðurstaða ráðuneytisins að ekki væri þörf á að taka til greina þessa kröfu kæranda.

Samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum er óheimilt að hefja tilkynningaskyldar framkvæmdir fyrr en fyrir liggur úrskurður um mat á umhverfisáhrifum eða ákvörðun um að framkvæmd sé ekki matsskyld. Eftirlit með því að farið sé að ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum er í höndum sveitarfélagsins Ölfuss.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum