Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2004 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Samið um rekstur Íslenskuskólans

Íslenskuskólinn - fyrir börn búsett í útlöndum.

Samningur um rekstur Íslenskuskóla á netinu verður undirritaður föstudaginn 26. nóvember kl.14:00 hjá Framvegis, miðstöð um símenntun, í Síðumúla 6, Reykjavík.

Menntamálaráðuneytið og utanríkisráðuneytið hafa á síðustu árum staðið í sameiningu að þróunarverkefni í samstarfi við Símenntunarmiðstöð Kennaraháskóla Íslands um íslenskukennslu á vefnum www.islenskuskólinn.is fyrir börn búsett í útlöndum. Síðasta vetur voru 400 nemendur í skólanum sem mynduðu öflugt tengslanet þótt þeir væru búsettir um allan heim. Frá byrjun var stefnt að sjálfstæði skólans og var óskað eftir tilboðum um rekstur hans síðasta haust. Alls bárust 10 umsóknir frá skólum, stofnunum og einkaaðilum.

Var niðurstaðan sú að ganga til samninga við Framvegis sem er í eigu Fjölbrautaskólans við Ármúla í samvinnu við kennara Íslenskuskólans. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra mun undirrita samninginn í húsnæði Framvegis.

Íslenskuskólinn er kjörinn vettvangur fyrir íslensk börn um allan heim til þess að læra og viðhalda íslenskri tungu. Skólastarfið skiptist í sjálfsnám og formleg námskeið með fjarkennara. Á vefnum islenskuskolinn.is eru leikir, ritunarsamkeppni, krossgátur, verkefni fyrir myndsköpun og margt fleira en um þessar mundir er verið að setja inn margvísleg verkefni í tenglsum við myndefni Frímerkja- og póstsögusjóðs.

Kennarar Íslenskuskólans hafa áralanga reynslu af kennslu með notkun upplýsingatækni. Gígja Svavarsdóttir og Þorbjörg Þorsteinsdóttir sjá um skipulag kennslu og námsefnisgerð og Árni Björgvinsson er netstjóri.

Framvegis, miðstöð um símenntun er fræðslustofnun sem skipuleggur endurmenntunarnámskeið  í  samvinnu  við  ýmsa  aðila. Fyrirtækið er í eigu Fjölbrautaskólans  við  Ármúla  og Sjúkraliðafélags Íslands og sinnir aðallega símenntun  stétta í heilbrigðis- og félagsþjónustu en sér jafnframt um  ýmis önnur verkefni s.s. starfsnám stuðningsfulltrúa, tungumálakennslu og fjarnámskeið. Framvegis  vinnur með kennurum  FÁ og starfar með fjórtán  grunnskólum við fjarnám  þar  sem  nemendur læra undir eftirliti í heimaskóla.

Sjá skólavef Íslenskuskólans – www.islenskuskolinn.is



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum