Hoppa yfir valmynd
2. desember 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Umsagnarfrestur um sameiningartillögur

Sameiningarnefndinni hafa borist svör frá allmörgum sveitarstjórnum, mörg þeirra með rökstuddum athugasemdum og ábendingum og vill nefndin þakka fyrir þau góðu viðbrögð. Þá hafa komið fram óskir frá einstökum sveitarfélögum um að umsagnarfrestur verði lengdur. Sameiningarnefndin hefur ákveðið að taka afstöðu til rökstuddra óska einstakra sveitarfélaga um lengri frest en til 1. desember. Nefndin undirstrikar þó nauðsyn þess að þau sveitarfélög sem undirbúa munu sameiningarkosningar hafi nægilegt svigrúm til þess að vinna það verkefni svo fullur sómi sé að og því er stefnt að því að lokatillögur nefndarinnar verði kynntar hið fyrsta.

Með vísan til framangreinds hvetur sameiningarnefndin til þess að þær sveitarstjórnir sem ekki hafa þegar skilað inn endanlegri umsögn eða rökstuddri frestsbeiðni geri það hið allra fyrsta. Í dag, 1. desember, var haldinn í húsakynnum Sambands íslenskra sveitarfélaga sameiginlegur fundur verkefnisstjórnar um átak um eflingu sveitarstjórnarstigsins, sameiningarnefndar og tekjustofnanefndar. Þar kom fram eindreginn vilji og einhugur meðal fulltrúa ríkis og sveitarfélaga til þess að halda vinnu við sameiningartillögur áfram samkvæmt fyrirliggjandi áætlun.

Nefndin mun því þegar hefja vinnu við að fara yfir innsend gögn þannig að hún geti hafið undirbúning að endanlegri tillögugerð til eflingar sveitarfélaga þannig að þau myndi heildstætt atvinnu- og þjónustusvæði, í samræmi við sameiginleg markmið Sambands íslenskra sveitarfélaga og félagsmálaráðuneytisins. Ráðuneytið mun hér eftir sem hingað til leggja verulega vinnu í verkefnið og taka fullan þátt í því með sveitarfélögum að þróa byggð landsins til framtíðar.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum