Hoppa yfir valmynd
6. desember 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Alþjóðlegur dagur fatlaðra 3. desember

Alþjóðadagur fatlaðra, 3. desember 2004

Ávarp Sigríðar Önnu Þórðardóttur umhverfisráðherra

Ágætu samkomugestir,

Sérstakur alþjóðadagur fatlaðra er til kominn að áeggjan Sameinuðu þjóðanna og má rekja allt aftur til 1982. Á þessum degi er vakin athygli á aðstæðum fatlaðra og hvatt til stuðnings við baráttu fyrir réttindum þeirra og velferð. En ekki er síður ástæða til að leggja áherslu á að víkka almenna vitund um ávinning samfélagsins af fullri þátttöku fatlaðs fólks. Það er mikilvægt að við höfum öll jafnan rétt til alhliða þátttöku í samfélaginu. Þessi sýn hefur í nágrannalöndum leitt af sér nýja nálgun við mótun næsta umhverfis og nefnt er „universal design." Eins og stundum hefur gerst er ekki á takteinum þjált hugtak á íslensku; „Aðgengi fyrir alla" nær þessu aðeins að hluta. Þessi sýn hefur í för með sér að ekki er verið að vinna sérstakar lausnir vegna fatlaðra heldur verði öll hönnun þannig úr garði gerð að reynt sé að taka tilliti til mjög margvíslegra þarfa manneskjunnar á öllum æviskeiðum. En þetta verkefni er ekki einungis í höndum þeirra sem móta umhverfi okkar, þetta varðar okkur öll og þekking og reynsla verður að komast til hönnuða umhverfis.

Viðfangsefni okkar hér í dag er af þessum toga. Við fáum að heyra sjónarmið fatlaðra, jafnt um það sem áfátt er, sem og um það sem vel hefur verið gert. Þá verður einnig hér á eftir sérstaklega fjallað um endurskoðun byggingarlaga.

Það er áhugavert að líta til baka og velta því upp hvernig kröfur um aðgengi hafa verið. Í fyrstu byggingarlögum frá 1978 stendur:„Í byggingarreglugerð skal setja ákvæði varðandi umbúnað bygginga til þess að auðvelda ellihrumu og fötluðu fólki að komast leiðar sinnar." Þessu var svo fylgt eftir með reglugerðarfyrirmælum sem í okkar augum í dag eru næsta ófullnægjandi. En í nýjum lögum og reglugerð frá 1998 eru ákvæði um aðgengi orðin allítarleg, að minnsta kosti fyrir hjólastólanotendur. Talsverðu er enn ábótavant er snertir t.d. blinda og heyrnarskerta. En hvernig má það vera að enn er verið að byggja þannig að ekki er tekið nægjanlegt tillit til aðgengis? Ef tekið er tillit til góðs aðgengis fyrir alla, strax á hönnunarstigi er sjaldnast um nokkurn kostnaðarauka að ræða. Hér virðist skorta vitund og þekkingu. Með leiðbeiningum og með því að draga fram dæmi um góðar lausnir erum við vonandi að fækka tilfellum þar sem nýjar byggingar eru ranglega hannaðar með tilliti til aðgengis. Raunar þarf þessi ásetningur að koma fram enn fyrr í ferlinum. Strax í aðalskipulagsáætlun sveitarfélags er ástæða til að leggja áherslu á og hugleiða aðgengi fyrir alla. Eða þegar lögð eru drög að stofnun þjóðgarðs verður snemma að spyrja spurningarinnar . . . og hvernig verður aðgengi háttað, líka fyrir fatlaða? Með þessu vil ég benda á, að það eru ekki einungis þeir sem beinlínis eiga að fjalla um hagsmuni fatlaðra t.d. hjá því opinbera sem eiga að hafa augu og eyru opin. Hvert og eitt okkar verður ævinlega að spyrja viðbótarspurningarinnar um aðkomu allra. Í þessu samhengi vil ég líka undirstrika nauðsyn þess að hlusta á reynslu og ábendingar fatlaðra um úrbætur því að þar er fólgin leið til að gera allt umhverfi okkar betra fyrir alla.

Ágætu áheyrendur

Ég hef hér að framan látið vera að fjalla um þegar byggt umhverfi okkar, götur og hús. Þar er vitaskuld um gífurlegt verkefni að ræða og vissulega að sama skapi kostnaðarsamt. Ekki er þó allt sem sýnist í þeim efnum því oft má með litlum tilkostnaði gera viðunandi úrbætur. Meginatriði er þó að stjórnvöld og húseigendur bregðist við þörfinni á úrbótum og vinni markvisst að því að bæta aðgengi í umhverfi. Að leiðarljósi má hafa eina af grunnreglum Sameinuðu þjóðanna þar sem stendur: „Fyrir einstaklinga sem eru fatlaðir á einn eða annan hátt ber aðildarríkjum að leggja fram aðgerðaáætlanir um gott aðgengi í umhverfi fatlaðra" .

Á vegum sjö ráðuneyta og hagsmunasamtaka fatlaðra er verið að semja framkvæmdaáætlun sem hefur það markmið að tryggja aðgengi fyrir alla með hliðsjón af meginreglum Sameinuðu þjóðanna um þátttöku fatlaðra til jafns við aðra. Þessi vinna er undir formennsku félagsmálaráðuneytis. Það er von mín að slíkri áætlun muni fylgja raunhæf áform um bætt aðgengi að eldri byggingum.

Að lokum vil ég lýsa yfir ánægju minni með að fá að vera með ykkur hér í dag og ég er viss um að Alþjóðadagur fatlaðra á þátt í að hvetja til úrbóta og færa samfélagið í átt að aukinni þátttöku fatlaðra í samfélaginu til jafns við aðra borgara landsins.

Gleðilega hátíð.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum