Hoppa yfir valmynd
6. desember 2004 Matvælaráðuneytið

Úthlutun byggðakvóta fiskveiðiárið 2004/2005

Fréttatilkynning um úthlutun byggðakvóta fiskveiðiárið 2004/2005

Sjávarútvegsráðherra hefur nú undirritað reglugerð um úthlutun byggðakvóta fiskveiðiárið 2004/2005. Samtals er úthlutað 3200 þorskígildum til fjörutíu byggðarlaga í 32 sveitarfélögum, sjö umsóknum var hafnað. Við úthlutunina er byggt á 9 gr. laga nr. 38, 1990 um stjórn fiskveiða.

Samkvæmt ákvæðum laganna skal byggt á tveimur meginsjónarmiðum. Annars vegar skal úthlutað byggðakvóta til minni byggðarfélaga sem lent hafa í vandræðum vegna samdráttar í sjávarútvegi og háð eru veiðum eða vinnslu á botnfiski. Hins vegar skal úthluta til byggðarlaga sem orðið hafa fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipta sem gerð hafa verið út og landað hafa í viðkomandi byggðarlögum og sem hafa haft veruleg áhrif á atvinnuástand í byggðarlögunum.

Sérstök nefnd undir formennsku Guðjóns Guðmundssonar gerði tillögur um aðferðir og viðmiðanir um úthlutun byggðakvótans og haft var samráð við Byggðastofnun um málið. Auglýst var þann 16. ágúst sl. eftir umsóknum frá sveitarstjórnum og var umsóknarfrestur til 1. október sl. Unnið hefur verið innan ráðuneytisins við að fara yfir umsóknir og leggja mat á aðstæður þeirra byggðalaga sem til greina koma.

Til grundvallar úthlutuninni vegna samdráttar í veiðum og vinnslu botnfisks er lagt mat á hver hlutfallsleg breyting hefur verið í veiðum og vinnslu á botnfiski í viðkomandi byggðarlagi á árunum sem liðin eru frá fiskveiðiárinu 1991/1992. Tekin er viðmiðun fyrir það ár sem veiðar og vinnsla var í mestum blóma hjá hverju sveitarfélagi og samdráttur síðan þá lagður til grundvallar. Við mat á samdrætti í veiðum er miðað við úthlutaðar aflaheimildir og landaðan afla. Ekki er úthlutað til byggðarlaga sem hafa fleiri en 1500 íbúa.

Til grundvallar úthlutun vegna óvæntrar skerðingar en annars vegar komið til móts við byggðarlög sem hafa treyst á veiðar og vinnslu á rækju og hörpuskel sem veidd er innan íslenskrar lögsögu. Báðar þessar greinar sjávarútvegsins hafa mátt þola miklar búsifjar á síðustu misserum vegna snöggra breytinga á aðstæðum. Ennfremur er undir þessum lið tekið tillit til samdráttar í úthlutuðum kvóta frá Byggðastofnun til sveitarfélaga sem hafa verið að ná sér út úr vanda sem varð til á þeim árum sem stofnuni lagði til grundvallar á sínum tíma. Það var mat ráðuneytisins að vandi þessara sveitarfélaga væri enn til staðar.

Við úthlutunina nú er meðal annars unnið eftir nýjum lagaákvæðum og því hefur tekið nokkurn tíma að vinna málið þannig að sem sanngjörnust niðurstaða fengist. Í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur áformar ráðuneytið að flýta umsóknar- og afgreiðsluferlinu á næsta ári þannig að byggðakvótaúthlutun geti farið fram á sama tíma og önnur úthlutun fyrir fiskveiðiárið 2005/2006.

Sjá nánar í meðfylgjandi töflu (PDF)

Sjávarútvegsráðuneytið

6. desember 2004



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum