Hoppa yfir valmynd
27. desember 2004 Innviðaráðuneytið

40 milljónum verður úthlutað vegna úrbóta í umhverfismálum á ferðamannastöðum

Samgönguráðuneytið fer með málefni íslenskrar ferðaþjónustu, og hefur ráðuneytið m.a. lagt áherslu á að íslensk náttúra verði ekki fyrir skaða af völdum þeirra fjölmörgu ferðamanna sem njóta hennar.

Fjöldi ferðamanna sem sækir landið heim eykst ár frá ári og er ljóst að árið 2004 verður enn eitt metárið í íslenskri ferðaþjónustu. Uppbygging á ferðamannastöðum og fyrirbyggjandi aðgerðir til verndunar á íslenskri náttúru eru mikilvægir liðir í því að sporna gegn ágangi á íslenska náttúru.

Undanfarin ár hefur umtalsverðum fjármunum verið veitt til uppbyggingar á ferðamannastöðum víðsvegar um landið og frá því verður ekki horfið á árinu sem er að hefjast.

Ferðamálaráð Íslands úthlutar að þessu sinni 40 milljónum króna vegna úrbóta í umhverfismálum á árinu 2005. Athygli er vakin á því að umsóknarfrestur er til 17.janúar 2005.

Umrædd styrkfjárhæð deilist á eftirfarandi þrjá flokka: 

1. Til minni verkefna
Úthlutað verður til minni verkefna í umhverfismálum þar sem áhersla verður lögð á uppbyggingu gönguleiða. Eingöngu verða veittir styrkir til efniskaupa. Hámarksupphæð hvers styrks verður 500 þúsund krónur.

2. Til stærri verkefna á fjölsóttum ferðamannastöðum
Veittir verða styrkir til stærri verkefna þar sem umsækjendur stýra framkvæmdum og svæðin verða í umsjón eða eigu styrkþega eftir að framkvæmdum lýkur.

3. Til uppbyggingar á nýjum svæðum:
Veittir verða styrkir til uppbyggingar á nýjum svæðum sem skipulögð hafa verið þannig að ferðamönnum nýtist viðkomandi svæði.

Nánari upplýsingar um þau atriði sem litið verður til við úthlutun er að finna á heimasíðu Ferðamálaráðs Íslands, http://www.ferdamalarad.is.

Öllum er frjálst að sækja um styrk en við úthlutun verður m.a. tekið mið af ástandi og álagi svæða, og mikilvægi aðgerðanna með tilliti til náttúruverndar.

Umsóknum er hægt að skila með vefpósti á umsóknareyðublaði sem nálgast má á heimasíðu Ferðamálaráðs, http://www.ferðamalarad.is 

Einnig er hægt að skila inn skriflegum umsóknum á eyðublöðum sem fást á skrifstofu Ferðamálaráðs, Strandgötu 29, 600 Akureyri, sími 461 2915

Nánari upplýsingar veitir umhverfisfulltrúi í síma 461 2915 eða með vefpósti [email protected]



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum