Hoppa yfir valmynd
7. janúar 2005 Innviðaráðuneytið

Metár í íslenskri ferðaþjónustu

Árið 2004 var enn eitt metárið í íslenskri ferðaþjónustu, t.d. sýna talningar, Hagstofa Íslands á gistinóttum á landsvísu, fyrir fyrstu 11 mánuði ársins, að aukning þar nemur 8,7%.

Í nóvember mánuði einum nam aukningin 6% sem sýnir að markmið um lengingu ferðamannatímans er að nást. Tölur Hagstofunnar sýna einnig að gistinóttum Íslendinga í nóvember fjölgaði um tæp 12% á meðan gistinóttum útlendinga fjölgaði um rúm 3%. Að sama skapi gefur þetta til kynna að sú áhersla sem samgönguráðuneytið, og aðrir aðilar í íslenskri ferðaþjónustu, hefur lagt á markaðskynningu meðal landsmanna er að skila góðum árangri.

Samgönguráðuneytið fer með málefni íslenskrar ferðaþjónustu og eru meginmarkmið ráðuneytisins á þessu sviði að vernda auðlindina Ísland og auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar af ferðamönnum. Vöxtur í ferðaþjónustunni hefur verið hraður á Íslandi, en hún aflar nú um 13% gjaldeyristekna og er annar mikilvægasti atvinnuvegurinn hvað það varðar á eftir sjávarútvegi.

Undanfarin ár hefur ráðuneytið lagt umtalsvert fé til verndunar á íslenskri náttúru og stóraukið aðkomu sína að markaðsmálum ferðaþjónustunnar. Ljóst er að þau markaðsverkefni sem ráðuneytið, og ferðaþjónustuaðilar um allt land, hafa staðið fyrir eru að skila sér í stöðugri fjölgun ferðamanna til landsins, þar sem ferðamönnum hefur að jafnaði fjölgað um 9% á ári.

Eitt þeirra markaðsverkefna sem ráðuneytið hefur beitt sér fyrir að undanförnu snýr beint að landmönnum. Flestir kannast eflaust við markaðsátakið Ísland sækjum það heim, en þar eru landsmenn hvattir til þess að njóta þeirra fjölbreyttu möguleika sem íslensk ferðaþjónusta býður upp á um land allt. Ísland sækjum það heim er víðtækt samstarf yfirvalda í íslenskri ferðaþjónustu, en markaðssókn ferðamálayfirvalda miðar einmitt að því að bjóða fyrirtækjum og sveitarfélögum að ganga til samstarfs í markaðs– og kynningarmálum. Ekki er þá um eiginlega styrki að ræða, heldur fjármagn til sameiginlegra verkefna með Ferðamálaráði Íslands, sem hefur yfirumsjón með markaðssókninni. Að undanförnu hafa verkefni sem styrkja ferðaþjónustu alls Íslands á heilsársgrunni gengið fyrir, enda er lengin ferðamannatímans eitt þeirra markmiða sem ferðaþjónustan hefur sett sér.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum