Hoppa yfir valmynd
11. janúar 2005 Matvælaráðuneytið

Viðræður við Færeyinga um fiskveiðimál

FRÉTTATILKYNNING

Viðræður við Færeyinga um fiskveiðimál.

  

 

              Landstjórnarmaðurinn Björn Kalsö, sem fer með sjávarútvegsmál í Færeyjum, og Árni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra, hittust í Reykjavík í gær til þess að ræða fiskveiðisamninginn milli Færeyja og Íslands.

 

              Urðu aðilar sammála um að botnfiskveiðiheimildir Færeyinga við Ísland yrðu óbreyttar á árinu 2005 og hafa því færeysk skip heimild til að veiða 5.600 lestir af botnfiski á árinu en heildarafli af þorski verður þó aldrei meiri en 1.200 lestir og lúðuafli aldrei meiri en 80 lestir.

 

              Varðandi veiðar á uppsjávarfiski þá verða í gildi á næsta ári sömu ákvæði og giltu á því síðasta. Íslensk skip hafa heimild til að veiða 2.000 lestir af Hjaltlandssíld við Færeyjar og 1.300 lestir af makríl en færeysk skip fá heimildir til veiða á 30 þús. lestum af loðnu við Ísland á loðnuvertíðinni 2005/2006 auk þess sem þau geta veitt þar 10 þús. lestir af loðnu, sem þau hafa heimild til að veiða í lögsögu Grænlands.

 

              Þá ákváðu aðilar að gagnkvæmar heimildir íslenskra og færeyskra til veiða á norsk-íslenskri síld og kolmunna innan lögsagna landanna yrðu óbreyttar.

 

              Aðilar ræddu þá stöðu sem upp kemur þegar væntanlegur fríverslunarsamningur milli landanna hefur verið staðfestur en að hluta tengist hann sjávarútvegsmálum. Loks voru rætt viðhorf og samvinna milli landanna innan svæðisbundinna fiskveiðistjórnarstofnana.

 

  

 

Reykjavík, 11. janúar 2005.

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum