Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2005 Innviðaráðuneytið

Ábyrgð vegna framkvæmda á ferðamannastöðum

Samkvæmt lögfræðiáliti ber framkvæmdaaðili sem annast hefur úrbætur á ferðamannastöðum enga ábyrgð á slysum sem verða á staðnum, nema slysið megi rekja beint til framkvæmdanna.

Ferðamönnum sem sækja Ísland heim hefur fjölgað gríðarlega undanfarna áratugi. Samhliða fjölgun ferðamanna hafa Ferðamálaráð og fleiri aðilar unnið að úrbótum á ferðamannastöðum, bæði til að bæta aðgengi að þeim og til að vernda náttúruna. Í kjölfar þessara úrbóta hefur vaknað umræða um bótaskyldu vegna hugsanlegra slysa sem kynnu að hljótast á viðkomandi stöðum og hvort hugsanlegt sé að framkvæmdaaðili geti verið gerður ábyrgur vegna þess og jafnvel Ferðamálaráð vegna þeirra svæða þar sem stofnunin hefur veitt styrki til framkvæmda. 

Vegna þessarar óvissu leitaði Ferðamálaráð álits lögfræðings á málinu og meðal annars var leitað eftir áliti um: Hver ábyrgð framkvæmdaaðila er eftir að viðkomandi hefur lagfært eða bætt aðgengi að tilteknu svæði? Hvað ef girt er fyrir hættur á ferðamannastöðum og ekki síður hvað ef það er ekki gert? Hvernig þurfa merkingar á svæðinu að vera orðaðar og hvað þarf að koma fram til að koma í veg fyrir að framkvæmdaraðili sé ábyrgur?

Samkvæmt áliti lögfræðings ber framkvæmdaaðili enga ábyrgð á slysum sem verða á slíkum stöðum nema slysið verði rakið beint til framkvæmdanna. Jafnframt þarf að vera hægt að sýna fram á, að þannig hafi verið staðið að framkvæmdinni að hún, sem slík, hafi skapað slysahættu. Búnaður í eigu viðkomandi aðila á ferðamannastöðum sem hugsanlega gætu orsakað bótaskylt slys yrði að öllum líkindum á ábyrgð framleiðanda búnaðarins og/eða verktaka sem annast framkvæmdina. Í reynd er það svo að slys á ferðamannastöðum eru annaðhvort óhappatilvik eða tilkominn fyrir atbeina hins slasaða sjálfs.

Varðandi merkingar, tilkynningar og viðvaranir á viðkomandi stöðum þá nægja, samkvæmt lögfræðiálitinu, allar venjubundnar merkingar eins og tíðkast hefur. Hinsvegar getur framkvæmda- eða umsjónaraðili ekki undanþegið sig ábyrgð varðandi slys sem hlýst af framkvæmdinni eða skorti á viðhaldi.

Samkvæmt frétt Ferðamálaráðs mun stofnunin, að hluta til í kjölfar lögfræðiálitsins, gera meiri kröfur um að búnaður og efnisval, sem veittir eru styrkir til, sé samkvæmt stöðlum og uppfylli kröfur sem gerðar eru samkvæmt lögum.

Ráðuneytið bendir á að Ferðamálaráð veitir frekari upplýsingar um málið, www.ferðamalarad.is.

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum