Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2005 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Úr þjóðarbúskapnum

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 1/2005

Efnahagsskrifstofa fjármálaráðuneytisins hefur gefið út nýja skýrslu ,,Úr þjóðarbúskapnum" sem hefur að geyma greinargerðir um framvindu og horfur helstu þátta efnahagsmála á árunum 2004-2006 meðal annars á grundvelli endurskoðaðrar þjóðhagsspár fjármálaráðuneytisins. Óverulegar breytingar frá haustspá ráðuneytisins eru útskýrðar. Auk þess eru birtir framreikningar til ársins 2010.

Helstu niðurstöður eru þessar:

  • Meginþungi stóriðjuframkvæmda fellur til á árunum 2005 – 2006. Árið 2007 fer að draga verulega úr framkvæmdunum og viðskiptahallanum og meira jafnvægi kemst á þjóðarbúskapinn. Vegna aðhalds í efnahagsstjórninni, sveigjanleika hagkerfisins og alþjóðlegrar samkeppni er því spáð að hagkerfið komist í gegnum þennan vaxtarkipp án þess að ofhitna.
  • Hagvöxtur árið 2004 varð nokkru meiri en haustspá ráðuneytisins gerði ráð fyrir. Nú er áætlað að hagvöxtur hafi verið 5,8% á árinu eða um 0,3% meiri en spáð var sl. haust, vegna meiri einkaneyslu og fjárfestingar. Í ár er spáð að hagvöxtur verði 5,5%, eða 0,5% meiri en haustspáin gerði ráð fyrir vegna áforma um auknar framkvæmdir við Norðurál og auk þess hefur hluta stóriðjuframkvæmda verið flýtt. Gert er ráð fyrir að greiðari aðgangur að ódýrara lánsfé hafi áhrif til að auka einkaneysluna. Árið 2006 er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði 4,7% sem er 0,2% meira en í haustspánni.
  • Vaxandi þjóðarútgjöld útskýra að mestu hagvöxtinn. Stóriðjufjárfestingar eru þar fyrirferðarmestar en þær falla að mestu til í ár og á næsta ári. Einnig er spáð að vöxtur einkaneyslunnar í heild verði áþekkur og í síðustu uppsveiflu. Óhjákvæmileg afleiðing er vaxandi viðskiptahalli í ár og á næsta ári. Þó er gert ráð fyrir að hann verði nokkru minni en spáð var í haust, aðallega vegna meiri útflutnings og minni halla í jöfnuði þáttatekna. Í langtímaspánni er gert ráð fyrir að viðskiptahallinn dragist hratt saman árin 2007-2008 og nálgist um 2% af landsframleiðslu árið 2010.
  • Aðhald í efnahagstjórn er þegar orðið nokkuð og er gert ráð fyrir að það aukist meðan framkvæmdirnar eru í hámarki. Spáð er að atvinnuleysi minnki í rúmlega 2% á komandi missirum. Framleiðsluspennu verður vart í hagkerfinu en gert er ráð fyrir að hún verði hófleg á næstu árum og minnki í kjölfar mestu framkvæmdanna. Verðbólgan ætti því að haldast innan þolmarka verðbólgumarkmiðs meðan framkvæmdirnar eru í hámarki árin 2005-2006. Spáð er að verðbólgan verði um 3,2% í ár, m.a. vegna frekari styrkingar krónunnar og aukinnar framleiðni. Á næsta ári er gert ráð fyrir 3,5% verðbólgu, en þá mun gæta áhrifa af lækkandi gengi íslensku krónunnar.

Nánari upplýsingar veitir Þorsteinn Þorgeirsson skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins í síma 545-9200.

Fjármálaráðuneytinu, 25. janúar 2005



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum