Hoppa yfir valmynd
27. janúar 2005 Matvælaráðuneytið

Frábær árangur Norðurlandaþjóðanna á Bocuse d'Or

Frábær árangur Norðurlandaþjóðanna á Bocuse d'Or

Frakkaland vann Bocouse d'Or matreiðslukeppnina sem staðið hefur yfir í tvo daga í Lyon í Frakklandi. Íslenski keppandinn Ragnar Ómarsson lenti í 5. sæti en 24 þjóðir taka þátt í keppninni sem er frægasta einstaklingsmatreiðslukeppni heims.

 

Sérstök verðlaun eru veitt fyrir besta fisk- og kjötréttinn og var Svíþjóð hlutskarpast í keppninni um fiskinn. Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra afhenti verðlaunin í þeim flokki en ferskur íslenskur skötuselur var notaður í keppninni og að sögn keppanda og dómara var um einstaklega gott hráefni að ræða. Að sögn Árna var þetta einkar ánægjuleg niðurstaða og greinilegt væri að Norðurlöndin ásamt Frakklandi stæðu upp úr í matreiðslu í heiminum í dag. Finnar unnu verðlaun fyrir besta kjötréttinn en kjötið í keppninni var dansk kálfakjöt.

 

Að sögn Gissurar Guðmundssonar forseta klúbbs matreiðslumeistara á Íslandi og á Norðurlöndunum er niðurstaða þessarar keppni sú að matargerðarlistin sem slík hefur færst frá Mið-Evrópu til Norðurlandanna. Gissur vildi koma á framfæri sérstöku þakklæti til Ragnars Ómarssonar og aðstoðarmanna hans og allra þeirra fjölmörgu sem staðið hafa að baki Klúbbs matreiðslumeistara svo þáttaka Íslands í keppninni gæti orðið að veruleika.

 

Fyrstu sjö sætin röðuðust sem hér segir.   Frakkland, Noregur, Danmörk, Svíþjóð, Ísland, Austurríki, Finnland.

 

 

Sjávarútvegsráðuneytið, 27. janúar 2005.

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum