Hoppa yfir valmynd
2. febrúar 2005 Matvælaráðuneytið

Sjávarútvegur í fortíð, nútíð og framtíð

 Fréttatilkynning frá sjávarútvegsráðuneyti og menntamálaráðuneyti

 

 

Sjávarútvegsráðuneytið og menntamálaráðuneytið munu standa fyrir samkeppni á þessu skólaári meðal grunnskóla landsins um verkefni sem ber yfirskriftina Sjávarútvegur í fortíð, nútíð og framtíð í tilefni af því að hinn 6. mars n.k. verða liðin 100 ár frá því fyrsti íslenski togarinn, Coot, kom til heima­hafnar í Hafnarfirði.

 

Um er að ræða verkefni þar sem nemendur búa til sérstakan sjávarútvegsvef eða vefsvæði á veraldarvefnum um framangreint efni. Verkefnið verður ekki afmarkað frekar og því hafa skólarnir sjálfdæmi um útfærslu þess. Þannig geta skólastjórnendur/kennarar í hverjum skóla ákveðið umfang verkefnisins og hvort það verði unnið af ákveðnum bekkjum, árgöngum eða verði samvinnuverkefni fleiri aldurshópa. Auðvelt ætti að vera að fella það að markmiðum aðalnámskrár grunnskóla og tengja það ýmsum námsgrein­um, einni eða fleiri, s.s. stærðfræði, heimilisfræði, íslensku, myndmennt, sögu, líffræði eða samfélagsfræði svo eitthvað sé nefnt.

 

Markmiðið með samkeppni af þessu tagi er að auka innsýn skólabarna í undirstöðu­atvinnugrein þjóðarinnar, sjávarútveg, og veita þeim um leið tækifæri til að tjá eigin hug­myndir um greinina. Jafnframt er verkefninu ætlað að vekja athygli almennings á sjávarútvegi og víkka þá umræðu sem á sér stað um hana. Ef vel tekst til má ætla að skólarnir geti þróað verkefnið frekar í framtíðinni og jafnvel yfirfært hugmyndir sínar á aðra þætti í skólastarfinu. Gæti það jafnvel orðið grunnur að samvinnuverkefni milli einstakra skóla eða landa.

 

Veitt verða vegleg verðlaun fyrir þrjú bestu verkefnin og munu verðlaunin koma í hlut viðkomandi skóla. Sérstök dómnefnd mun meta verkefnin. Við val á verðlaunaverkefnum verður tekið mið af framsetningu, hugmyndavinnu, fræðslugildi, efnistökum, heildarsvip og fleiri þáttum. Fulltrúum þeirra skóla sem verða í þrem efstu sætunum verður síðan boðið á sjávarútvegssýninguna í september 2005 þar sem verðlaunin verða afhent.

 

Í vikunni verða send út bréf til allra grunnskóla landsins þar sem verkefnið verður kynnt skólastjórnendurm.

 

Nánari upplýsingar veitir sjávarútvegsráðuneytið í síma 545 8370, netfang:  [email protected]

 

 

Reykjavík 2. febrúar 2005

 

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum