Hoppa yfir valmynd
9. febrúar 2005 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Lykiltölur um kennslu og nám í tungumálum

Kennsla í fyrsta erlenda tungumáli hefst æ fyrr í skólakerfum Evrópulanda.

Kennsla í fyrsta erlenda tungumáli hefst æ fyrr í skólakerfum Evrópulanda.

Eurydice, upplýsinganet um menntamál í Evrópu, hefur gefið út ritið Key Data on Teaching Languages at School in Europe. Í ritinu er að finna samanburðarhæfar upplýsingar um kennslu og nám í tungumálum í 30 Evrópulöndum, þ.e. Evrópusambandslöndunum 25 og EFTA/EES löndunum þremur, auk Búlgaríu og Rúmeníu. Viðmiðunarár upplýsinga er oftast skólaárið 2002/2003 en í allmörgum tilvikum er sýnd þróun yfir lengra tímabil eða byggt á eldri upplýsingum. Í ritinu er ekki lagt mat á árangur tungumálakennslu.

Útgáfa sérstaks Key Data rits um kennslu og nám í tungumálum í menntakerfum Evrópulanda endurspeglar þá miklu áherslu sem Evrópusambandið leggur nú á þennan málaflokk. Opinber tungumál ESB eru nú 20 en Evrópumálin eru að sjálfsögðu miklu fleiri. Í samvinnu Evrópuþjóða hafa færni í erlendum tungumálum og varðveisla fjölbreytileika tungumála lengi verið ofarlega á baugi og árið 2002 hvatti ráðherraráð Evrópusambandsins í Barcelona til stöðugs átaks við „að auka grundvallarfærni (basic skills), sérstaklega með því að kenna a.m.k. tvö erlend tungumál frá unga aldri“. Á Íslandi hafa tvö erlend tungumál, danska og enska, um langan aldur verið skyldunámsgreinar á grunnskólastigi. Á bóknámsbrautum framhaldsskóla bætist síðan við þriðja erlenda tungumálið og á málabrautum það fjórða.

Kennsla erlends tungumáls sem skyldunámsgreinar hefst nú fyrr en áður tíðkaðist í skólakerfum Evrópulanda og urðu talsverðar breytingar á þessu sviði á tímabilinu 1974-2003. Í langflestum Evrópulöndum gefst nemendum kostur á að læra tvö erlend tungumál á skólaskyldualdri en algengt er að aðeins annað þeirra sé skyldunámsgrein og að kennsla seinna tungumálsins hefjist ekki fyrr en á unglingastigi (8.-10. bekk). Ísland er eitt fárra landa sem hefja kennslu tveggja erlendra tungumála á barnaskólastigi (1.-7. bekk), þ.e. ensku í 5. bekk og dönsku í 7. bekk. Kennsla fyrsta erlenda tungumálsins hefst hins vegar síðar hér á landi en víða í samanburðarlöndunum eða við 10 ára aldur. Rúmlega helmingur samanburðarlandanna byrjar kennslu fyrsta erlenda tungumálsins við 7-9 ára aldur. Menntamálaráðuneytið skoðar nú möguleika á að hefja kennslu fyrsta erlenda tungumáls, ensku, fyrr en nú er gert í skólakerfinu. Stytting náms til stúdentsprófs mun einnig óhjákvæmilega leiða til breytinga á námskrám, þ.m.t. kennslu í erlendum tungumálum.

Enska er það erlenda tungumál sem mest er kennt á skyldunámsstigi í langflestum Evrópulöndum. Hlutfall þeirra nemenda sem læra ensku á unglingastigi og framhaldsskólastigi jókst mikið á tímabilinu 1998-2002, sérstaklega í löndum Mið- og Austur-Evrópu. Þrátt fyrir viðleitni margra landa til að koma á fjölbreyttu námsframboði í kennslu erlendra tungumála í skólakerfum kemur í ljós að enska, franska, þýska, spænska og rússneska eru 95% allra tungumála sem kennd eru á unglingastigi og í framhaldsskólum. Um 90% nemenda á unglinga- og framhaldsskólastigi læra ensku. Þýska og franska eru önnur mest kenndu tungumálin. Í ritinu kemur fram að ýmis önnur mál eru skyldunámsgreinar af sögulegum eða pólitískum ástæðum, s.s. danska á Íslandi.

Hlutfall þeirra nemenda á barnaskólaaldri (1.-7. bekk) á Íslandi sem læra ensku er tæp 42%. Meðaltal ESB landanna 25 er rúm 46%. Þetta skýrist af því að kennsla ensku hefst ekki fyrr en við 10 ára aldur hér á landi en hefst víða fyrr. Í ritinu er gerð grein fyrir nýlegum breytingum á kennslu ensku og dönsku hér á landi á grunnskólastigi.

Í ritinu má sjá lágmarkstíma sem varið er til kennslu erlendra tungumála sem hlutfall af heildarkennslutíma, þegar um er að ræða skyldunámsgreinar. Hlutfallið á Íslandi er 4,0% á barnaskólastigi og 18,9% á unglingastigi. Í samanburði við önnur lönd er hlutfallið hátt á unglingastigi en fremur lágt á barnaskólastigi. Í Danmörku eru þessi hlutföll t.d. 5,6% og 22,0%, í Svíþjóð 9,3% og 17,0% í Finnlandi 5,8% og 14,0%.

Við samanburð á lágmarksfjölda kennslustunda og fjölda ára í skyldunámi í fyrsta erlenda tungumálinu kemur fram að heildarfjöldi klukkustunda á Íslandi til kennslu fyrsta erlenda tungumáls er 384 klukkustundir á 6 árum. Samanburðurinn sýnir að flestar Evrópuþjóðir verja lengri tíma til þessarar kennslu. Í Finnlandi eru t.d. kenndar 456 stundir á 7 eða 9 árum, í Danmörku eru 510 stundir á 6 árum, í Frakklandi 713 á 8 árum og í Þýskalandi 1127 á 8 árum.

Key Data on Teching Languages at School in Europe 2005 er aðgengilegt á slóðinni: http://www.eurydice.org/Doc_intermediaires/indicators/en/frameset_key_data.html.

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum