Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 9/2005. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 17. febrúar 2005

í máli nr. 9/2005:

Nesey ehf.

gegn

Vegagerðinni

Með bréfi 9. febrúar 2005, sem barst kærunefnd útboðsmála 11. febrúar 2005, kærir Nesey ehf. niðurstöðu útboðs nr. 427, auðkennt „Suðurstrandarvegur, Hraun-Ísólfsskáli".

Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála stöðvi alla samningsgerð af hálfu Vegagerðarinnar vegna útboðsins þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru.

Krafist er að nefndin úrskurði um niðurstöðu útboðsins á þá leið að semja skuli við kæranda á grundvelli tilboðs hans.

Þá krefst kærandi að nefndin úrskurði að framgangur kærða eftir að tilboð voru opnuð 18. janúar 2005 sé ólögmætur.

Kærandi krefst þess að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kærða.

Loks krefst kærandi að kærði verði úrskurðaður til að greiða kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi.

Kærði krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað.

I.

Kærandi hefur í máli þessu krafist stöðvunar samningsgerðar, sbr. heimildir kærunefndar útboðsmála samkvæmt 80. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001. Í 1. mgr. 54. gr. laganna kemur fram að tilboð skuli samþykkja skriflega innan gildistíma þess og er þá kominn á bindandi samningur á grundvelli útboðsgagna og tilboðs bjóðanda. Þó skal gera sérstakan samning um kaup á vöru, þjónustu eða verki á grundvelli útboðsins þegar við á eða annar aðili óskar þess. Í 1. mgr. 83. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001 kemur fram að eftir að samningur hefur verið gerður verður hann ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt. Í 3. mgr. sömu greinar segir að um gildi samninga, sem stofnað er til samkvæmt lögunum, fari að öðru leyti eftir almennum reglum.

Í máli þessu liggur fyrir verksamningur milli kærða og Háfells ehf. um það verk sem boðið var út í hinu kærða útboði. Samningurinn er dagsettur 10. febrúar 2005. Á því tímamarki verður að líta svo á að kominn hafi verið á bindandi samningur milli kærða og þess aðila. Brestur kærunefnd útboðsmála því heimild til að verða við kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar á grundvelli hins kærða útboðs.

Með vísan til framangreinds verður að hafna kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar í útboðinu.

Ákvörðunarorð:

Hafnað er kröfu kæranda Neseyjar um stöðvun samningsgerðar í útboði nr. 427, auðkennt „Suðurstrandarvegur, Hraun-Ísólfsskáli".

Reykjavík, 17. febrúar 2005.

Páll Sigurðsson

Stanley Pálsson

Sigfús Jónsson

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 17. febrúar 2005.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn