Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 34/2004. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 24. febrúar 2005

í máli nr. 34/2004:

Servida ehf.

gegn

Ríkiskaupum

Með bréfi 19. ágúst 2004, sem barst kærunefnd útboðsmála sama dag, kærir Servida ehf. rammasamningsútboð Ríkiskaupa nr. 13538 auðkennt: „Sápur, hreinsiefni og áhöld."

Kröfur kæranda eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi að kærunefnd útboðsmála „ákveði að Ríkiskaup hafi ekki haft rétt til þess að vísa tilboðinu frá og verði dæmt skaðabótaskylt á móti Servida ehf."

Í öðru lagi að kærunefnd útboðsmála „útiloki alla þrjá aðila sem voru teknir inní rammasamning nr. 13538".

Kærði krefst þess að hafnað verði kröfum kæranda.

I.

Í júní 2004 var efnt til hins kærða rammasamningsútboðs. Kærði fyrir hönd áskrifenda að rammasamningskerfi kærða stóðu fyrir útboðinu. Um var að ræða opið EES-útboð og skyldi opnunartími tilboða vera 16. júní 2004. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi sent starfsmanni kærða tölvupóst 13. júlí 2004 með upplýsingum um blöndun á tilboði kæranda. Með tölvubréfi starfsmanns kærða til kæranda þann 13. júlí 2004 var tilkynnt að ósamræmi hefði verið í tilboði kæranda. Sama dag sendi kærandi skýringar á tilboði hans lið fyrir lið. Með bréfi Þórhalls Hákonarsonar starfsmanns kærða, dags. 21. júlí 2004, var kæranda tilkynnt um að ákveðið hefði verið að taka tilboði Besta ehf., Rekstrarvörum og Ræstivörum í útboðinu. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni með bréfi 21. júlí 2004. Með bréfi sama starfsmanns kærða, dags. 22. júlí 2004, var tekið fram að við mat og samanburð tilboða í útboðinu hafi komið í ljós ósramræmi í tilboðsgerð kæranda við útboðsgögn. Tilboð kæranda hafi verið óeðlilega lág og því hafi verið óskað skýringa við því. Skýringar kæranda hafi ekki borið saman við upphaflegt tilboð kæranda og því hafi tilboði hans verið vísað frá frekara mati.

Í framhaldinu óskaði kærandi eftir því að samið yrði við félagið sem fjórða aðila í útboðinu. Með bréfi, dags. 27. júlí 2004, var kröfu kæranda að þessu leyti hafnað. Kærandi óskaði eftir því með tölvubréfi 29. júlí 2004 að kærði léti í té vörunúmer á sápu sem „viðkomandi fyrirtæki ætli að selja til sjúkrahúsanna og segjast vera án rotvarnarefna". Kærði svaraði fyrirspurninni með því að óska eftir fresti til að svara, sbr. Tölvubréf 29. júlí 2004. Kærandi ítrekaði óskina með tölvubréfi 6. ágúst 2004.

II.

Kærandi byggir á því að það sé ekki rétt að verðtilboð félagsins hafi verið of lágt. Tilboð félagsins séu byggð upp á verðlistum þar sem afsláttarprósenta er sett og ekkert hafi breyst í því. Það sé í fylgiskjölum útboðsins þar sem beðið sé um skýringar sem séu mjög ónákvæmar og erfitt hafi verið að fylgja leiðbeiningum. Þau hreinsiefni sem kærandi bjóði upp á séu mjög „concentrarad" og byrji að virka þegar þau blandist vatni. Sparnaðurinn náist með réttri blöndu og efnin virki blönduð í vatni allt niður í 1:200. Efnin séu blönduð mismunandi eftir notkun og spurningar í útboði hafi ekki verið skýrar.

Þá er byggt á því að sápan sem Rekstrarvörur, Besta og Ræstivörur hafi boðið uppfylli ekki skilyrði um að mega ekki innihalda litar- og ilmefni, rotvarnarefni, eða nokkur efni sem erti húðina eða geti valdið ofnæmi, sbr. bls. 10 útboðsgagna.

III.

Kærði krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað, enda ekki grundvöllur til að taka þær til greina. Kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæran hafi verið sett fram þar sem niðurstaðan hafi verið sett fram með tölvubréfi 21. júlí 2004 sem hafi verið móttekið af kæranda sama dag. Fjögurra vikna frestur hafi því verið liðinn þegar kæra hafi verið árituð um móttöku hjá kærunefnd útboðsmála 24. ágúst 2004.

Þá sé byggt á því að ósamræmi hafi verið milli tilboðs kæranda og útboðsgagna. Tilboð kæranda hafi upphaflega verið of lág og því hafi verið óskað skýringa hjá kæranda. Tilboð kæranda hafi verið skýrt með tölvubréfi 13. júlí 2004 og hafi þá komið í ljós misræmi tilboðs og skýringa. Tilboð kæranda hafi farið í bága við ákvæði 1.2.7 útboðsgagna.

Þá gæti misskilnings hjá kæranda, sem telji að hann sé sá eini sem geti boðið sápu án rotvarnarefna. Í útboðslýsingunni komi fram að handsápa megi innihalda litar, ilm- og rotvarnarefni svo framarlega sem þau erti ekki húðina eða geti valdið ofnæmi.

IV.

Af þeim gögnum sem fyrir liggja verður séð að rökstuðningur fyrir því að hafna tilboði kæranda var sendur kæranda 22. júlí 2004. Kærandi sendi kærunefnd útboðsmála kæru, dags. 20. ágúst 2004. Samkvæmt 78. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001 er kærufrestur fjórar vikur frá því að kærandi vissi eða mátti vita um ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur að brjóti gegn réttindum sínum. Kærunefnd útboðsmála telur að upphaf kærufrests hafi verið 22. júlí 2004 og kæran því of seint fram komin þegar hún barst nefndinni.

Ennfremur verður ráðið af tilboði kæranda og skýringum sem gefnar voru í tölvubréfi 13. júlí 2004 að skýringarnar hafi ekki samrýmst tilboðinu. Þannig verður ekki annað ráðið en að verð hafi breyst nokkuð eftir að óskað hafði verið eftir skýringum frá kæranda um tilboð hans. Var slík röskun á tilboðsgerð í nokkru ósamræmi við þau sjónarmið sem gilda í opinberum innkaupum um skýrleika tilboða.

Að virtum gögnum málsins er það mat kærunefndar útboðsmála að kærða hafi verið heimilt að lögum að hafna tilboði kæranda. Með vísan til framangreindra atvika verður að hafna kröfum kæranda í máli þessu.

Beðist er velvirðingar á því að dregist hefur fram úr lögbundnum fresti að kveða upp úrskurð í máli þessu.

Úrskurðarorð:

Kröfum kæranda, Servida ehf. vegna útboðs Ríkiskaupa nr. 13538 auðkennt: „sápur, hreinsiefni og áhöld", er hafnað.

Reykjavík, 24. febrúar 2005,

Páll Sigurðsson

Stanley Pálsson

Sigfús Jónsson

Rétt endurrit staðfestir

Reykjavík, 24. febrúar 2005Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn