Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2005 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Undirritun kjarasamningis ríkisins við stéttarfélög innan BHM

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 3/2005

Í dag, 28. febrúar 2005, var undirritaður kjarasamningur milli 24 stéttarfélaga innan Bandalags háskólamanna (BHM) og samninganefndar ríkisins, f.h. fjármálaráðherra. Samningurinn gildir frá 1. febrúar sl. til 30. apríl 2008.

Í samningnum felst m.a. sú nýbreytni að samið er um eina launatöflu fyrir öll félögin án lífaldursþrepahækkana og að á hverri stofnun verði gerður einn sameiginlegur stofnanasamningur við öll stéttarfélögin. Þetta er hvort tveggja til mikils hagræðis og einföldunar fyrir ríkið sem launagreiðenda og stofnanir þess. Sem dæmi má nefna að samkvæmt núgildandi kerfi gerir Landsspítali háskólasjúkrahús 14 mismunandi stofnanasamninga vegna þeirra félaga sem hér um ræðir. Með því að taka upp eina launatöflu er enn fremur dregið mjög úr launamun kynjanna sem byggir á mismunandi launatöflum stéttarfélaga, en því hefur oft verið haldið fram að veruleg skýring á þeim launamun byggi á mismunandi verðmati starfsstétta. Þetta er mikilvægur áfangi í því verkefni að draga úr þeim ætlaða launamun sem ekki er unnt að skýra með öðrum þáttum en kynferði.

Áfangahækkanir samningsins eru þær sömu og samið hefur verið um á hinum almenna vinnumarkaði, en heildarkostnaðaráhrifin eru metin á 19,83%. Í því kostnaðarmati er gert ráð fyrir sérstöku framlagi vegna fyrrnefnds átaks til þess að jafna launamun kynjanna. Að auki er gert ráð fyrir fjármagni til launaþróunar á fyrri hluta árs 2006 og 2007 sem kemur að hluta í stað núgildandi lífaldurshækkana. Til þess að tryggja að heildarkostnaður verði innan umsamdra marka, þ.e. 19,83%, skuldbinda samningsaðilar sig til að vinna sameiginlega að nauðsynlegum breytingum. Gert er ráð fyrir því að af hálfu fjármálaráðuneytis verði sett upp sérstakt teymi til að aðstoða stofnanir við þetta verkefni.

Þess ber að geta að af hálfu ríkisins er það forsenda fyrir gerð þessa samnings að hann verði samþykktur af öllum BHM félögunum sem um ræðir. Ekki er gert ráð fyrir að kjarasamningar á framangreindum grundvelli raski heildarforsendum fjárlaga.

Nánari upplýsingar veitir Ragnheiður E. Árnadóttir, aðstoðarmaður fjármálaráðherra (862 0028).

Fjármálaráðuneytinu, 28. febrúar 2005



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum